Ólafía lék fyrsta hring á höggi undir pari

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í Ástralíu.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er í Ástralíu. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur lauk rétt í þessu fyrsta hringnum á Opna ástralska mótinu í golfi í Adelaide en það er annað mót ársins á LPGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims.

Ólafía lék holurnar átján á 72 höggum, einu höggi undir pari vallarins, og er sem stendur í 25.-38. sæti af 144 keppendum. Þess ber hinsvegar að geta að hún var í fyrri hópi keppenda og seinni 72 hófu keppni núna klukkan 01.20 að íslenskum tíma og eru því engir þeirra komnir á blað þegar þetta er skrifað.

Ólafía fór ekki vel af stað því hún fékk skolla á fyrstu holu. Á eftir komu fjögur pör í röð en síðan fuglar á sjöttu og áttundu holu, og tveir til viðbótar á 11. og 13. holu. Á þeirri stundu var staða hennar orðin mjög vænleg en eftir fjórtán holur var Ólafía komin í fimmta sæti og á þremur höggum undir pari.

Þá kom hinsvegar bakslag og skollar á bæði 15. og 16. holu. Par á þeirri sautjándu og að lokum par á 18. og síðustu holu.

Niðurstaðan varð því 11 pör, 4 fuglar og 3 skollar.

Með morgni verður endanleg staða Ólafíu eftir fyrsta hringinn komin á hreint og um leið hvenær hún fer af stað á öðrum hring en það verður væntanlega seint um kvöldið að íslenskum tíma, snemma á föstudagsmorgni að staðartíma í Ástralíu.

Jane Park og Marissa Steen frá Bandaríkjunum hafa leikið best allra til þessa en þær eru með forystuna og hafa lokið fyrsta hringnum á 67 höggum, sex höggum undir pari vallarins.

Mbl.is fylgdist með gengi Ólafíu frá holu til holu:

01.36 - Átjánda og síðasta holan - Ólafía leikur hana á pari og lýkur því fyrsta hringnum á einu höggi undir pari vallarins, 72 höggum. Hún er sem stendur í 25.-38. sæti.

01.04 - Sautjánda hola - og Ólafía stöðvar slæma kaflann með því að leika hana á pari, fjórum höggum. Hún er því áfram á einu höggi undir pari fyrir lokaholu hringsins, og er  núna í 23.-34. sæti. Enn eru bara 72 keppendur af 144 komnir á blað.

00.49 - Sextánda hola - og aftur skolli! Slæmur kafli núna hjá Ólafíu sem leikur par 3 holu á fjórum höggum. Núna er hún á einu höggi undir pari og í 21.-32. sæti. Tvær holur eftir af þessum hring. 
Lítum á Jane Park sem er með forystu ásamt Marissu Steen, löndu sinni, eins og staðan er núna en þær eru báðar á sex höggum undir pari:

00.41 - Fimmtánda hola - og bakslag. Ólafía fær sinn annan skolla á hringnum, leikur par 4 holuna á fimm höggum. Þá er hún á tveimur höggum undir pari og núna í 15.-20. sæti. Þrjár holur eftir.

00.27 - Fjórtánda holan - og Ólafía er á pari í níunda sinn á þessum hring. Hún er áfram á þremur höggum undir pari og núna í 8.-11. sæti.

00.23 - Við skulum samt halda okkur við jörðina og rétt að taka fram að einungis 72 af 144 keppendum eru byrjaðir. Seinni helmingurinn fer af stað frá og með klukkan eitt.

00:10 - Þrettán búnar og enn batnar það! Ólafía Þórunn heldur áfram að spila gríðarlega vel. Hún nær í öruggt par á tólftu holunni og gerir svo gott betur á þeirri þrettándu, þar sem hún nær í sinn fjórða fugl í dag. Ólafía er á þrem höggum undir pari og í 6. sæti. Gaman að skoða stöðutöfluna:

23.38 - Glæsilegt! Fugl á elleftu holu - Ólafía fær sinn þriðja fugl í dag og er hún komin tveim höggum undir pari vallarins. Fyrir utan skollann á 1. holu, þá er hún búin að spila glæsilega í dag. Ólafía er nú í 8. sæti, þrem höggum á eftir Marissa Steen sem vermir toppsætið þessa stundina. 

23.19 - Tíunda holan - og sjöunda parið hjá Ólafíu. Enn sýnir hún stöðugleikann. Núna er hún í 12.-26. sæti á einu höggi undir pari vallarins. Hún þremur höggum á eftir forystusauðunum en þrjár hafa leikið á 4 undir pari. Sem fyrr á um helmingur eftir að hefja keppni. 
Kíkjum aftur á Lydiu Ko frá Nýja-Sjálandi sem er ekki komin vel í gang, miðað við sína stöðu á heimslistanum, og er á pari vallarins, höggi á eftir Ólafíu. Hér er hún: 

23.10 - Níu holur - Ólafía er hálfnuð á fyrsta hring - og hún lék níundu holuna (þá 18. á vellinum) á pari. Sjötta parið hennar. Tveir fuglar og skolli. Samanlagt á 35 höggum, einu undir pari vallarins, og Ólafía er í góðri stöðu fyrir síðari níu holurnar. Hún er í 11.-25. sæti.

22.54 - AFTUR! Ólafía nær í annan fugl og er núna á einu höggi undir pari. Annar fuglinn á síðustu þremur holunum. Átta holur búnar hjá henni. Hún er í 11.-26. sæti sem stendur en ennþá eiga um 70 keppendur eftir að ljúka sinni fyrstu holu og eru því ekki komnir á blað. 

22.42 - Sjöunda holan (sú sextánda á  vellinum) og Ólafía heldur sínum stöðugleika. Hún leikur á pari, 3 höggum, og er því komin með par á fimm höggum af sjö, einn skolla og einn fugl. Hún er semsagt á parinu samanlagt.
Lydia Ko er ein sú  besta í heimi en hún er á pari eins og Ólafía og vel er fylgst með henni:

22.35 - Þar kom það! Sjötta holan og fyrsti fuglinn hennar Ólafíu í Ástralíu. Hún leikur par 5 holuna (þá fimmtándu) á 4 höggum og vinnur upp skollann sem hún fékk á fyrstu holunni. Þar með er hún á parinu eftir sex holur af átján. Ólafía er í sæti 22-43 en það segir ósköp lítið því enn hefur innan við helmingur keppenda hafið keppni.

22.21 - Fimmta hola Ólafíu (númer 14) og sú fjórða í röð sem hún leikur á pari, 4 höggum. Hún er áfram á einu höggi yfir pari.

21.46 - Fjórða holan (númer 13 á vellinum), og áfram heldur Ólafía sig við parið. Leikur hana á 4 höggum. Hún er því sem fyrr á einu höggi yfir pari samanlagt. Athygli fjölmiðla er á Lydia Ko sem var að fara af stað: 

21.36 - Ólafía leikur þriðju holuna (12. holu vallarins) á pari, 3 höggum. Sama staða hjá henni, eitt högg yfir pari.

21.24 - Önnur holan er frá og hana leikur Ólafía á pari, 4 höggum. Hún er því á einu höggi yfir pari eftir tvær holur.

21.03 - Fyrsta holan búin og Ólafía byrjar ekki vel því hún fær skolla, leikur á fimm höggum eða einu yfir pari.

20.41. Ólafía er farin af stað. Klukkan er 07.11 á fimmtudagsmorgni í Adelaide, 10,5 tímum á undan íslensku klukkunni.

20.30 - Fyrstu tveir ráshóparnir fóru af stað klukkan 20.30. Með Ólafíu í hópi eru Belen Mozo frá Spáni og Celine Herbin frá Frakklandi og þær hefja keppni á 10. teig. Katherine Perry frá Bandaríkjunum sló fyrsta höggið sem sjá má hér: 

Ólafía hafnaði í 69.-72. sæti á sínu fyrsta móti í þessari sterkustu mótaröð heims í lok janúar, á Bahamaeyjum.

Mótið heit­ir ISPS Handa og fer fram á The Royal Adelai­de og er par vall­ar­ins 73 högg. Heild­ar­verðlauna­fé móts­ins nem­ur 1,3 millj­ón­um Banda­ríkja­dala eða um 150 millj­ón­um króna, sem er sama upp­hæð og var í verðlaun á Bahamaeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert