Fagnar nýliði sigri á Masters?

Jon Rahm ætlar sér stóra hluti á Masters.
Jon Rahm ætlar sér stóra hluti á Masters. AFP

Phil Mickelson telur að hinn 22 ára gamli Jon Rahm hafi það sem til þarf til að vinna Masters-mótið í golfi sem hefst á Augusta-vellinum á fimmtudaginn.

Rahm gerðist atvinnumaður í golfi í fyrra eftir að hafa farið sem stigahæsti áhugamaður heims á US Open. Hann keppti svo einnig á The Open í Skotlandi svo Masters verður þriðja risamót hans á ferlinum.

Rahm er viss um að geta unnið Masters en 38 ár eru liðin síðan að nýliði vann mótið. Fuzzy Zoeller vann mótið í fyrstu tilraun árið 1979.

„Ef ég teldi mig ekki geta unnið þá væri ég ekki hér,“ sagði Rahm og minnti á sigur sinn á PGA-mótinu á Torrey Pines í Kaliforníu í janúar. „Torrey Pines er ekki staður þar sem að nýliðar vinna oft sigur en mér tókst það. Þetta er þó auðvitað öðruvísi. Þetta er risamót og mitt fyrsta mót á Augusta,“ sagði Rahm.

Rahm, sem er í 12. sæti heimslistans, hefur æft undir handleiðslu Tim Mickelson, sem er bróðir Phil Mickelson. Phil segir Rahm vel geta unnið Masters og að Rahm haldi stöðugt áfram að renna stoðum undir þá skoðun. Spánverjinn veit vel hvernig hann vill að fyrsti hringurinn hjá sér verði á fimmtudag:

„Ég vona að þetta „Guð minn góður, ég er á Masters“-augnablik verði eins stutt og mögulegt er. Ég veit að sú stund mun renna upp. Kannski tekur það eina eða tvær holur að ná áttum, en ég vil að það gerist eins fljótt og hægt er. Ég vil ekki vera kominn á 12. holu, á þremur höggum yfir pari, og fara þá fyrst að hefja leik,“ sagði Rahm og benti á að það hefði komið fyrir hjá sér á fyrri risamótum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert