Hafði Ballesteros hönd í bagga?

Sergio Garcia fagnar fugli á Augusta.
Sergio Garcia fagnar fugli á Augusta. AFP

Íþróttaáhugamenn komast ekki hjá þeirri hugsun að örlögin hafi gripið í taumana þegar Spánverjinn Sergio Garcia vann „loksins“ sitt fyrsta risamót í golfi á Masters í kvöld. Sigurinn kom á 60 ára afmælisdegi landa hans og goðsagnarinnar Seve Ballesteros sem lést árið 2011 eftir veikindi. 

Sjá einnig: Langþráður sigur Garcia

Sergio Garcia er 37 ára gamall og hefur lengi verið þekktur kylfingur og einn frægasti íþróttamaður á Spáni. Hann þótti hálfgert undrabarn í íþróttinni og varð til að mynda yngsti maðurinn til að keppa í Ryder-bikarnum árið 1999. Fékk hann um það leyti gælunafnið El Niño í heimalandinu og festist það við hann en það má þýða sem strákurinn.

Hann hefur almennt verið talinn einn allra besti kylfingurinn sem ekki hefur tekist að vinna eitt risamótanna. Hann er nú laus við þá vafasömu nafnbót. Þess má geta að Garcia sigraði áhugamannakeppnina á Masters árið 1999 og gerðist atvinnumaður í framhaldinu. 

Seve Ballesteros og Jose Maria Olazabal.
Seve Ballesteros og Jose Maria Olazabal. PAUL MCERLANE

Garcia er geysilega hæfileikaríkur og hefur um árabil verið í hópi snjöllustu kylfinga heims þótt flestum sérfræðingum beri saman um að hann ætti að hafa landað fleiri sigrum á ferlinum til þessa. Fáir slá jafnvel og Garcia þegar hann er í stuði og er hann óvenjuhögglangur fyrir svo lágvaxinn og grannan kylfing. Hann hefur hins vegar mikla úlnliðstækni og framkallar með þeim hætti mikinn kylfuhraða í sveiflunni. Púttin hafa hins vegar reynst honum erfiðari á ferlinum en þessa fjóra daga á Masters voru púttin með skársta móti hjá honum, jafnvel þótt hann hafi misst stutt pútt fyrir fugli á 72. holu. 

Sló í gegn á PGA-meistaramótinu 1999

Garcia vakti fyrst mikla athygli í golfheiminum haustið 1999 þegar hann barðist við Tiger Woods um sigurinn á PGA-meistaramótinu, síðasta risamóti ársins. Garcia var á einungis 19 ára og Tiger 23 ára. Eftirminnilegt er þegar Garcia sló snilldarhögg við rætur stórs trés á 13. holu Medinah-vallarins á lokahring mótsins og hljóp á eftir boltanum af mikilli ástríðu. Margir golfunnendur muna vel eftir þessu atviki. Tiger hafði betur og Garcia átti eftir að þurfa að sætta sig við annað sætið í stórmótum nokkrum sinnum eftir þetta. 

Sergio Garcia slær höggið fræga á Medinah Country Club á …
Sergio Garcia slær höggið fræga á Medinah Country Club á PGA-meistaramótinu 1999. Reuters

Aftur varð hann í 2. sæti á PGA-meistaramótinu árið 2008. Einnig á hann tvö silfur frá Opna breska meistaramótinu. Árið 2007 og 2014. Auk þess hafnaði hann í 3. sæti á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2005. Yfirleitt var talið að Garcia myndi eiga erfitt með að vinna einhvern tíma á Augusta National þar sem Masters-mótið er ávallt haldið. Hann hefur sjaldan fundið sig á Masters og hans besti árangur á mótinu þar til nú var 4. sæti. Hann hefur þó átt frábæra 18 holu hringi inn á milli á Augusta og lék til dæmis lokahringinn 2004 á 66 höggum. Var þá á 31 höggi á seinni 9 holunum sem hann lék á 31 höggi. 

Sergio Garcia hleypur á eftir boltanum eftir höggið ótrúlega á …
Sergio Garcia hleypur á eftir boltanum eftir höggið ótrúlega á 13. holunni á PGA-meistaramótinu 1999. Reuters

Frábær árangur í Ryder-bikarnum

Þrátt fyrir að hafa ekki unnið risamót þá fékk Garcia aldrei á sig „tapara“-merkimiða í golfheiminum. Meðal annars vegna þess að hann hefur oft spilað frábærlega í Ryder-bikarnum og þar er árangur hans framúrskarandi. Þar hefur hann unnið 19 leiki, gert 11 jafntefli og tapað 7 leikjum. Fimm sinnum hefur hann verið í sigurliði Evrópu í Rydernum. Auk þess hefur hann þótt vera mikill keppnismaður.

Garcia sýndi síðustu tvö árin ákveðin ummerki um að hann gæti enn þá unnið risamót eftir allt saman. Hann hefur leikið nokkuð vel og tekið út þroska. Hann er orðinn rólegri og yfirvegaðri en áður. Jafnvel auðmýkri en þegar hann var yngri en þá gátu skapsveiflur og einbeitingarskortur farið illa með hann á mikilvægum mótum.

Einnig er rólegra yfir einkalífi Garcia en oft áður í þeim skilningi að það er í fastari skorðum en Garcia mun ásamt unnustu sinni ganga upp að altarinu á árinu. 

Spánverjar fagna í kvöld og í nótt. Garcia er þriðji Spánverjinn sem sigrar á Masters-mótinu. Ballesteros gerði það tvisvar, 1980 og 1983. Jose Maria Olazabal hefur einnig sigrað tvívegis á mótinu sem gerði 1994 og 1999. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert