Fjórði íslenski karlinn á Evrópumótaröðinni

Guðmundur er fjórði íslenski karlinn sem keppir í Evrópumótaröðinni.
Guðmundur er fjórði íslenski karlinn sem keppir í Evrópumótaröðinni. Ljósmynd/nordeamasters.se

Aðeins þrír íslenskir karlar hafa leikið á Evrópumótaröðinni í golfi fram að þessu. Sá fjórði er Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR) sem hefur leik á Nordea Masters-mótinu á  Barsebäck-vellinum í Svíþjóð í dag.

Árið 2003 vann Björgvin Sigurbergsson (GK) mót með því fyrirkomulagi að leiknar voru 36 holur á Jaðarsvelli á Akureyri og 36 holur á Hvaleyrarvelli helgina á eftir. Sá sem var á samanlögðu lægsta skori öðlaðist þátttökurétt á The Carlsberg Open sem var hluti af Evrópumótaröðinni, en mótið var haldið í Malasíu í febrúar 2004. Björgvin spilaði ágætlega en náði þó ekki í gegnum niðurskurðinn, og endaði jafn í 126. sæti.

Birgir Leifur Hafþórsson (GKG) komst inn í Evrópumótaröðina árið 2006 eftir að hafa staðið sig vel á úrtökumótum og spilað sig inn í mótaröðina. Alls hefur Birgir leikið á 58 mótum í mótaröðinni, en hann var með fullan keppnisrétt.

Heiðar Davíð Bragason lék svo einnig á einu móti á Evrópumótaröðinni á sínum tíma, eftir að hafa sigrað á Opna spænska áhugamannamótinu sem gaf honum boð á eitt mót á Spáni.

Það verður spennandi að fylgjast með Guðmundi næstu daga en hann hefur leik í dag kl 14:10 að staðartíma með Niklas Lemke og Nathan Kimsey. Hægt er að fylgjast með stöðunni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert