Góðgerðamót Ólafíu - 5 LPGA-kylfingar

Ólafía og KPMG eru í samstarfi og munu halda glæsilegt …
Ólafía og KPMG eru í samstarfi og munu halda glæsilegt mót í næstu viku.

Þriðjudaginn 8. ágúst munu KPMG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir halda góðgerðagolfmót til styrktar Barnaspítala Hringsins. Mótið fer fram á Leirdalsvelli hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, en að minnsta kosti fimm LPGA-kylfingar verða með í mótinu. Auk þeirra munu nokkrir af bestu kylfingum landsins taka þátt í mótinu, en fyrirtæki og einstaklingar geta keypt sér sæti í mótinu.

„Ég hlakka ótrúlega mikið til að koma heim eftir nokkuð langa og stranga keppnislotu. Ég hef nánast ekkert spilað golf heima síðan á landsmótinu í fyrra þannig að það verður mjög gaman að koma og spila með góðum félögum og styrkja um leið þetta frábæra málefni sem er mér mjög hugleikið.  Höfum gaman og #verumgóð“ segir Ólafía Þórunn í fréttatilkynningu frá KPMG.

„Við erum ákaflega stoltir stuðningsaðilar Ólafíu Þórunnar og það að standa að svona viðburði með henni sameinar vel markmið okkar um að styðja við golfíþróttina og að láta gott af okkur leiða“ segir Jón S. Helgason framkvæmdastjóri KPMG.  „Við vonum bara að sem flestir komi og horfi á þessa kylfinga, það er ekki á hverjum degi sem við fáum LPGA spilara til landsins að spila golf“.

Stefna að því að fá níu kylfinga

„Það ræðst svolítið af hvernig mótið fer um helgina. Þær sem við höfum fengið staðfestar eru allar á topp 100 listanum og samanlegt verðlaunafé þessara stelpna er 600-700 milljónir," sagði Jón í samtali við mbl.is.

Þó geti hann staðfest komu eins kylfings, Sandra Gal frá Þýskalandi sem hefur reynst Ólafíu einskonar leiðbeinandi á mótaröðinni. Gal hefur unnið eitt mót á LPGA-mótaröðinni og varð í þriðja sæti á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2012. Hún hefur verið í Solheim Cup liði Evrópu tvíveigis, er liðið vann árið 2011 og var með árið 2015. Hún keppti á Ólympíuleikunum í Ríó fyrir hönd Þýskalands þar sem hún endaði jöfn í 25. sæti.

Solheim Cup er um miðjan mánuðinn og því er erfitt að segja til um hverjar verða í styrktarmótinu, þar sem ef kylfingar standa sig vel á Opna breska meistaramótinu um helgina, eiga þeir möguleika á að komast í Solheim Cup liðin. Þá hefjast herbúðir liðanna í næstu viku og eiga því þeir kylfingar ekki kost á að koma til landsins.

"Það eru tvær bandarískar sem eiga möguleika á að komast í Solheim Cup liðið en ef þær komast ekki þar inn þá er líklegt að þær komi hingað. Það er mjög spennandi að fá þessa kylfinga til landsins, þannig við erum bara að vona að þær verði fleiri en þær sem við erum búin að tryggja nú þegar. Við stefnum að því að fá níu LPGA-kylfinga," sagði Jón, en lokafjöldi leikmannanna ræðst af úrslitum helgarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert