Axel í góðri stöðu eftir helgina

Axel Bóasson lék vel í Svíþjóð um helgina.
Axel Bóasson lék vel í Svíþjóð um helgina.

Atvinnukylfingurinn Axel Bóasson styrkti stöðu sína í efsta sæti stigalistans á Nordic Golf-mótaröðinni með því að lenda í 9. - 12. sæti mótsins á öðru mótinu af fjórum í úrslitakeppni mótaraðarinnar sem fram fór í Uppsala í Svíþjóð um helgina.

Axel sem lék á 10 höggum undir pari vallarins um helgina hefur nú þegar tryggt sér eitt af fimm efstu sætunum á stigalistanum þegar tvö mót eru eftir á tímabilinu. Axel hefur þar af leiðandi tryggt sér þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta keppnistímabili. 

Axel hefur sigrað á tveimur mótum á árinu, en hann hefur þar að auki verið tíu sinnum á meðal 15 efstu sætanna. Axel hefur þénað 38.906 evrur á tímabilinu sem er tæplega 4 þúsund evrum meira en Christopher Feldborg Nielsen sem er annar.

Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson komust ekki í gegnum niðurskurðinn á mótinu um helgina. 

Haraldur Franklín er að berjast um það að tryggja sér sæti á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili, en hann þarf að treysta á góða spilamennsku í næstu mótum. Haraldur Franklín er dottinn niður í 6. sæti stigalistans, en hann er þó einungis 2.000 evrum frá fjórða sætinu og því stutt þar á milli. 

Næsta mót á Nordic Golf-mótaröðinni fer fram dagana 5.-7. október og ber nafnið Race to Himmerland. Axel og Haraldur Franklín eru skráðir til leiks á það mót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert