Ísland fer í erfiðan riðil í forkeppni Ólympíuleikanna í Póllandi

Úrslitin í lokaumferð milliriðla Evrópukeppninnar í Noregi í gærkvöld voru íslenska landsliðinu í handknattleik heldur betur hagstæð. Þýskaland, Danmörk og Króatía tryggðu sér öll sæti í undanúrslitum keppninnar og Frakkar voru þegar komnir þangað.

Fyrir lá að ef Þjóðverjar myndu sigra Svía, Danir myndu sigra Slóvena og Króatar næðu stigi gegn Norðmönnum, myndi 8. sætið sem náðist á HM í Þýskalandi í janúar 2007 fleyta Íslandi inn í forkeppni Ólympíuleikanna.

Þjóðverjar unnu Svía, 31:29, Danir sigruðu Slóvena, 28:23, og Króatar gerðu jafntefli við Norðmenn, 23:23. Liðin fjögur sem komin eru í undanúrslitin voru öll búin að tryggja sér sæti í forkeppninni. Eitt þeirra fer beint á Ólympíuleikana í Peking, annaðhvort sem Evrópumeistari, eða silfurlið EM á eftir Þjóðverjum, en þeir eru þegar komnir með Ólympíufarseðlana sem heimsmeistarar.

Þetta þýðir að eitt þessara liða dettur út úr forkeppninni og Ísland færist beint inn í hana í staðinn.

Það liggur ennfremur fyrir að Ísland mun leika í erfiðum riðli í forkeppninni. Sá riðill verður leikinn í Póllandi í vor. Auk Pólverja og Íslendinga verður í honum efsta liðið á EM sem ekki var komið með sæti í forkeppninni. Ljóst er að það verður Noregur eða Svíþjóð, sem leika um 5. sætið á morgun. Þau komast bæði í forkeppnina en sigurliðið verður í riðli Íslands.

Fjórða liðið í riðlinum verður síðan lið númer tvö í Ameríku, sem mun vera lið Argentínu. Tvö efstu liðin komast á Ólympíuleikana í Peking og því ljóst að íslenska landsliðið á heldur betur snúið verkefni fyrir höndum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert