Bikarslagur í Strandgötu

Haukar og Valsmenn leika í undanúrslitunum, bæði hjá körlum og …
Haukar og Valsmenn leika í undanúrslitunum, bæði hjá körlum og konum. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki liggja allir handboltamenn á meltunni um hátíðirnar þótt gert hafi verið nokkurra vikna hlé á keppni N1-deild karla og kvenna. Í dag eru leikin undanúrslitin í deildabikar karla og kvenna í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði.

Á milli jóla og nýárs fær að minnsti kosti hluti þess hóps sem leikur í efstu deild karla og kvenna tækifæri til þess að draga fram skóna og taka þátt í deildabikarkeppni HSÍ, Flugfélags Íslands bikarnum. Þar leiða fjögur efstu lið N1-deildar karla og kvenna saman hesta sína í hinu fornfræga íþróttahúsi Hafnfirðinga við Strandgötu.

Í dag mætast Haukar og Valur annars vegar í karlaflokki og FH og Akureyri hinsvegar. Flautað verður til leiks klukkan 14 og 16.

Klukkan 12 á hádegi hefst reyndar handboltafjörið með viðureign Vals og Hauka í kvennaflokki. Sex stundum síðar, þegar karlaleikjunum tveimur verður lokið, fer fram síðari undanúrslitaleikur í kvennaflokki þegar Stjarnan og Fram mætast en það eru sömu lið og léku til úrslita á Íslandsmótinu í vor.

Sigurliðin úr viðureignum sunnudagsins mætast síðan á morgun, mánudaginn 28. desember, í úrslitaleikjum. Hjá körlunum hefst úrslitaleikurinn klukkan 18 en tveimur stundum síðar í kvennaflokki.

Fram varð deildabikarmeistari karla í fyrra og ver ekki titilinn þetta árið. Stjarnan á hins vegar möguleika á að verja titilinn í kvennaflokki.

Karlalið Hauka mætir til leiks sem efsta lið úrvalsdeildarinnar. Haukarnir voru ósigraðir í fyrstu átta leikjum sínum á Íslandsmótinu en töpuðu þeim níunda og síðasta fyrir jól, gegn HK. Þeir eru með 14 stig en FH, Akureyri og Valur eru öll með 11 stig og ljóst að hvert þessara liða sem er getur staðið uppi sem deildabikarmeistari.

Valskonur mæta ósigraðar til leiks en þær eru með þriggja stiga forskot á Íslandsmótinu og eru með 20 stig. Fram er með 17 stig, Haukar 16 og Stjarnan 15 en þess ber að geta að Stjarnan á tvo frestaða leiki til góða, annan þeirra gegn Fram. Það eru því líka horfur á geysilega spennandi keppni hjá konunum um deildabikarinn.

Miðaverð hvorn dag er 1.000 kr fyrir 16 ára og eldri. Frítt er fyrir þá sem yngri eru.

iben@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert