Afturelding vann fyrsta leikinn

mbl.is

Afturelding vann ÍBV, 31:26, í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum í umspili um sæti í úrvalsdeild karla í handknattleik að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld. Eyjamenn voru marki yfir í hálfleik, 13:12. Liðin mætast öðru sinni í Vestmannaeyjum á sunnudag.

Ef Afturelding vinnur í Eyjum á sunnudag er liðið komið áfram í keppni við annað hvort Gróttu eða Víking um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð. Vinni Eyjamenn á heimavelli þá kemur til oddaleiks á milli liðanna að Varmá á þriðjudagskvöldið.

Eftir jafnan fyrri hálfleik tók Afturelding öll völd í leiknum í strax í byrjun síðari hálfleiks. Um miðjan síðari hálfleik voru Mosfellingar komnir með fjögurra marka forskot, 21:17, og þeir náðu mest sex marka forskot. Það var ekki síst fyrir góðan varnarleik og stórleik Smára Guðfinnssonar markvarðar sem leiðir Aftureldingarmanna og Eyjamanna skildu. Smári varði 23 skot í leiknum, þar af þrjú vítaköst.

Frábær stemning var á leiknum að Varmá. Áhorfendur voru á að giska rúmlega 500 og tóku ríkan þátt í leiknum. Svo sannarlega skemmtileg stemning að Varmá.

Mörk Aftureldingar: Jón Andri Helgason 10/2, Bjarni Aron Þórðarson 6/1, Ásgeir Jónsson 4, Aron Gylfason 3, Hrafn Ingvarsson 3, Þrándur Gíslason 3, Magnús Einarsson 2.
Varin skot: Smári Guðfinnsson 23/3 (þaraf 9 til mótherja).
Utan vallar: 10 mínútur.
Mörk ÍBV: Sigurður Bragason 10/6, Sindri Ólafsson 4, Arnar Pétursson 3, Grétar Þór Eyþórsson 3/1, Leifur Jóhannesson 2, Vignir Stefánsson 2,  Einar Gauti Ólafsson 1, Sindri Haraldsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Aron Ingibjargarson 18/1 (þaraf 5 til mótherja).
Utan vallar: 14 mínútur.
Dómarar: Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson.

Gangur leiksins: 0:1, 2:3, 5:4, 7:6, 7:9, 9:11, 10:12, 12:12, 12:13, 15:13, 17:16, 21:17, 25:19, 26:23, 29:24, 31:26.  

Fylgst var með gangi leiksins í textalýsingu mbl.is.

53. Mosfellingar eru á góðri leið með að tryggja sér sigur, staðan er 25:20.

46. Eyjamenn taka leikhlé. Afturelding hefur ráðið lögum og lofum síðustu mínútur er nú með fimm marka forskot, 22:17. Smári Guðfinnsson markvörður hefur skellt í lás í marki Mosfellinga í kjölfarið hafa fylgt hraðaupphlaup sem lagt hafa grunninn að forystunni.

38. Leikmenn Aftureldingar byrja síðari hálfleik af krafti. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörkin og komust þar af leiðandi strax yfir, 14:13. Vörnin er góð og Smári Guðfinnsson traustur í markinu. Átök og pústrar halda áfram á milli leikmanna og ljóst að hvorugt liðið ætlar að gefa átakalaust eftir. Mikil og góð stemning áfram á áhorfendapöllunum þar sem eflaust eru um 500 manns og hafa hátt.

30. Sigurður Bragason kom ÍBV einu marki yfir sex sekúndum fyrir leikslok með marki úr vítakasti. Leikmenn ÍBV hafa haft frumkvæðið síðustu tíu mínúturnar eftir að þeir skoruðu þrjú mörk í röð og breytt stöðunni úr 7:6 fyrir Aftureldingu í 9:7. Eftir það náðu Eyjamenn í tvígang tveggja marka forskoti, 11:9, og 12:10.
Jón Andri Helgason er markahæstur hjá Aftureldingu með fjögur mörk. Bjarni Aron Hilmarsson hefur skorað þrjú mörk. Smári Guðfinnsson hefur átt fínan leik í markinu í fyrri hálfleik og varið 11 skot, þar af eitt vítakast.
Hjá ÍBV er Sigurður Bragason markahæstur með fimm mörk, öll úr vítakasti. Arnar Pétursson hefur skorað þrjú mörk. Kolbeinn Ingibjargarson hefur varið 9 skot í marki ÍBV.

Ljóst má vera að barist verður til síðasta blóðdropa að Varmá að þessu sinni. Leikmenn spila fast.

20. Leikurinn heldur áfram að vera jafn og liðin skiptast á að ná eins marks forskoti. Afturelding hefur farið illa að ráði sínu í síðustu sóknum þar sem kjörin tækifæri hafa farið í súginn; eitt vítakasti og tvö hraðaupphlaup. Staðan er jöfn, 7:7.

10. Staðan er jöfn, 3:3. Fast er tekist á í leiknum og hafa fjórir leikmenn fengið að hvíla sig í tvær mínútur hver, þrír Mosfellingar og einn leikmaður ÍBV. Eyjamenn hafa heldur haft frumkvæðið í leiknum en ljóst er að mikið á eftir að ganga á áður en leikurinn er á enda.

Gríðarleg stemning er í íþróttahúsinu að Varmá og hávaðinn er mikill en stuðningsmenn Aftureldingar fara mikinn hér. Stuðningsmenn Eyjamanna eru færri en láta sitt ekki eftir liggja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert