„Hef aldrei upplifað aðra eins stemningu“

Frá sigurgleði leikmanna Hauka á Ásvöllum.
Frá sigurgleði leikmanna Hauka á Ásvöllum. mbl.is/Árni Sæberg

Stórskyttan Sigurbergur Sveinsson lék kveðjuleik sinn fyrir Hauka gegn Val í oddaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Hann var að vonum í skýjunum með niðurstöðuna en Haukar sigruðu 25:20 og eru þrefaldir meistarar í ár.

„Þetta var fullorðins. Ég hef aldrei upplifað aðra eins stemningu. Það var troðfullt í húsinu nánast klukkutíma fyrir leik og maður á eiginlega ekki orð. Þetta var stórkostlegt og ég hefði ekki getað hugsað mér betri leik til að kveðja Hauka. Að spila oddaleik fyrir framan alla þessa áhorfendur og sigra,“ sagði Sigurbergur í samtali við mbl.is eftir að Haukar tóku við Íslandsbikarnum og hann gerði ekki lítið úr því hversu jöfn rimman var.

„Þetta var virkilega jafnt en hlutirnir féllu með okkur undir lokin og í seinni hálfleik. Við vorum einhvern veginn grimmari. Þetta var ótrúlega jafnt og erfitt að segja núna hvað skildi á milli liðanna. Mér fannst við vera mjög flottir og duglegir að keyra á þá,“ sagði Sigurbergur ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert