Arnór varði HK í gang

Ólafur Víðir Ólafsson og Baldvin Þorsteinsson eigast við í leiknum …
Ólafur Víðir Ólafsson og Baldvin Þorsteinsson eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

HK er komið í frábæra stöðu í úrslitaeinvígi sínu gegn FH um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla eftir þriggja marka sigur 29:26 í kvöld. Þetta var annar leikur liðanna og er staðan orðin 2:0 og svo getur farið að HK lyfti sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á sunnudaginn þegar liðin mætast aftur.

Markahæstur hjá HK voru Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ólafur Víðir Ólafsson, báðir með sex mörk. Arnór Freyr Stefánsson varði 20 skot í markinu og varði HK hreinlega í gang eftir að hann kom inn á þegar 23 mínútur voru búnar af leiknum.

Hjá FH var það Hjalti Þór Pálmason sem skoraði mest eða átta, þar af fimm úr vítum. Daníel varði 19 skot í markinu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér að neðan. Liðsskipan má sjá neðst á síðunni.

60. Leik lokið með sigri HK 29:26

57. Úrslitin eru líklega ráðin en HK er með fimm marka forskot 28:23 þegar þrjár mínútur og fimmtán sekúndur eru eftir. Það er ekki að sjá á FH eins og stendur að þeir hafi burði til að ná þessu niður.

55. Staðan er 26:23 en Hjalti Þór var að minnka muninn úr vítakasti.

50. Liðin skiptast á að skora en staðan er 24:21, þegar tíu mínútur eru eftir. Allt getur gerst ennþá það er nokkuð ljóst.

44. Munurinn orðinn fjögur mörk 22:18 en Arnór Freyr var að verja sitt þriðja vítakast í röð, þvílík innkoma hjá drengnum.

42. Lok lok og læs, segir Gunnar á Völlum, kynnir á þessum leik, og það er hárrétt hjá honum. Arnór Freyr er búinn að loka markinu og það sama má segja hinum megin á vellinum þar sem Daníel stendur en staðan er enn 20:17. Arnór er með 12 skot varin en Daníel 11, Arnór er þó búinn að spila 23 mínútum minna en Daníel!

39. Þjálfarar FH taka leikhlé en munurinn er orðinn þrjú mörk, 20:17, og liðið er einum manni færri. Flest hefur gengið upp hjá HK síðustu mínútur á meðan sókn FH höktir verulega.

37. HK hefur náð tveggja marka forskoti 19:17, Arnór Freyr sá til þess með því að verja vítakast en hann hefur verið frábær eftir að hann kom inn á. Bæði lið eru með menn útaf sem stendur vegna tveggja mínútna brottvísana.

33. HK er búið að jafna metin 17:17 og þá var FH að missa mann af velli þegar Baldvin braut á Tandra. Réttilega dæmdar tvær mínútur hjá þeim Anton og Hlyn sem hafa dæmt þennan leik afar vel.

31. Seinni hálfleikur er hafinn.

30. Hálfleikur - FH-ingar skoruðu síðasta mark hálfleiksins og breyttu stöðunni í 15:16. Síðasta markið var glæsilegt en Örn Ingi sendi þá á Ara Magnús sem tók boltann á lofti og smellti honum í netið, svokallað sirkusmark! Ari Magnús er markahæstur FH-inga með fjögur en Atli Rúnar, Ólafur og Hjalti Þór eru allir með þrjú mörk. Daníel Freyr er búinn að vera góður í markinu og verja 9 skot. Hjá HK er Ólafur Bjarki markahæstur með fjögur og þeir Atli Ævar og Sigurjón eru báðir með þrjú mörk. Spennan er mikil í Digranesi og hún heldur að öllum líkindum áfram í seinni hálfleik ef eitthvert mark er takandi á þessum fyrstu þrjátíu mínútum.

25. Staðan er 12:13 en Arnór Freyr er kominn í markið hjá HK og strax búinn að verja tvö skot. Það tók að mati þess sem þetta skrifað, allt of langan tíma hjá þjálfurum HK að skipta um markvörð. HK missti mann af velli áðan en komst vel frá þeim leikkafla. Nú eru FH-ingar einum manni færri.

20. Staðan er 10:12 FH í vil en það sem skilur liðin helst að þessa stundina er að Björn Ingi er ekki kominn með eitt skot varið í marki HK á meðan Daníel Freyr er með fimm skot í marki FH. Stemningin og spennan er mikil í Digranesi.

15. Ólafur Víðir var að jafna metin fyrir HK í 8:8 en fram að því hafði lítið verið skorað.

9. Fjögur mörk hjá FH gegn aðeins einu marki HK gerir það að verkum að staðan er orðin 5:7 FH í vil. Vörnin hjá gestunum er gríðarlega ákveðin og loksins small hún með þeim afleiðingum fyrir heimamenn að þeir finna ekki margar glufur sem stendur. Sóknarleikur FH gengur hinsvegar mjög vel.

5. Leikurinn fer fjörlega af stað og lítið um góðar varnir en staðan er 4:3 HK í vil. FH jafnaði metin 2:2 og svo aftur 3:3, þeir eru nú í sókn.

2. Frábær byrjun hjá HK, Bjarki Már Elísson skoraði fyrsta markið úr vinstra horni og Sigurjón annað markið úr því hægra, staðan því 2:0. Dæmt var sóknarbrot á FH í fyrstu sókn þeirra.

1. Þá er allt til klárt og leikurinn er hafinn og byrja heimamenn í sókn. Athygli vakti að FH-ingar völdu þann vallarhelming sem HK er vant að hefja seinni hálfleik. Sálfræðistríðið er því þegar hafið!

0. Hálftíma fyrir leik var stúkan orðin mjög vel setin. Nú þegar um 15 mínútur eru í að leikurinn hefjist þá er stúkan að fyllast HK megin. Enn eru nokkuð mörg pláss laus þar sem stuðningsmenn FH sitja.

0. Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson munu annast dómgæsluna og eftirlitsdómari er Ólafur Örn Haraldsson.

0. Vilhelm Gauti Bergsveinsson fyrirliði HK fékk rautt spjald í síðasta leik en verður með liðinu í dag. Hann var kominn með tvær brottvísanir eftir um 16 mínútna leik en hékk inn á þrátt fyrir að spila fyrir miðju varnar HK, þangað til fimm mínútur voru eftir af leiknum.  

0. Tandri Már Konráðsson og Atli Ævar Ingólfsson voru markahæstir í fyrsta leik liðanna en báðir skoruðu þeir sex mörk. Þá varði Björn Ingi Friðþjófsson 18 skot þar af eitt víti. Hjá FH var Örn Ingi Bjarkason markahæstur með 6 og Hjalti Pálmason skoraði 5. Það sem vakti mesta athygli í markaskorun FH var það að Ólafur Gústafsson komst ekki á blað þrátt fyrir nokkrar tilraunir og að spila mikið. Markvarslan var ekki góð en Daníel Freyr Andrésson sem spilaði lungann úr leiknum varði 7 skot. Pálmar Pétursson sem leysti hann af síðustu 15 mínúturnar eða svo varði 5 skot.  

0. HK byrjaði mun betur í síðustu viðureign liðanna, komst meðal annars í 6:1. Þá hrökk FH í gang og náði að minnka muninn fyrir hálfleikinn. En í þeim síðari náði HK mest sjö marka forskoti, 19:12, og höfðu að lokum þægilegan sigur.

Lið HK: Björn Ingi Friðþjófsson (m), Arnór Freyr Stefánsson (m), Valgeir Tómasson (m), Bjarki Már Gunnarsson, Björn Þórsson Björnsson, Bjarki Már Elísson, Tandri Már Konráðsson, Leó Snær Pétursson, Ólafur Bjarki Ragnarsson, Atli Ævar Ingólfsson, Ólafur Víðir Ólafsson, Sigurjón Friðbjörn Björnsson, Vilhelm Gauti Bergsveinsson, Atli Karl Bachmann.
Þjálfarar liðsins eru Erlingur Birgir Richardsson og Kristinn Guðmundsson.

Lið FH: Daníel Freyr Andrésson (m), Pálmar Pétursson (m), Sigurður Ágústsson, Andri Berg Haraldsson, Baldvin Þorsteinsson, Hjalti Þór Pálmason, Hjörtur Hinriksson, Ólafur Gústafsson, Magnús Óli Magnússon, Örn Ingi Bjarkason, Þorkell Magnússon, Ari Magnús Þorgeirsson, Ísak Rafnsson, Ragnar Jóhannsson, Atli Rúnar Steinþórsson.
Þjálfarar liðsins eru Einar Andri Einarsson og Kristján Arason.

Ragnar Jóhannsson, FH reynir að komast framhjá þeim Bjarka Má …
Ragnar Jóhannsson, FH reynir að komast framhjá þeim Bjarka Má Gunnarssyni og Vilhelm Gauta Bergsveinssyni, HK í síðasta leik liðanna. mbl.is/Árni
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert