Útrunnið landvistarleyfi hjá lykilmanni ÍBV

Ivana Mladenovic í undanúrslitaleik bikarkeppninnar gegn Val í gær.
Ivana Mladenovic í undanúrslitaleik bikarkeppninnar gegn Val í gær. mbl.is/Ómar

Útlit er fyrir að serbneska handknattleikskonan Ivana Mladenovic hafi leikið sinn síðasta leik með ÍBV á þessu keppnistímabili þar sem landvistarleyfi hennar er útrunnið og hún gæti þurft að yfirgefa landið á morgun. Frá þessu er greint á vef Eyjafrétta.

„Við erum í raun bara að bíða eftir lokaúrskurði í þessu máli en höfum verið að reyna leysa þetta á farsælan hátt.  Að hluta er um að kenna yfirsjón og klúðri hjá ÍBV og hins vegar breyttar og hertar vinnureglur hjá Vinnumálastofnun,“ segir Sindri Ólafsson, formaður handknattleiksdeildar ÍBV, við Eyjafréttir en búið er að loka félagsskiptaglugganum og því er útilokað fyrir ÍBV að útvega annan leikmann í stað Mladenovic.

ÍBV hefur tryggt sér 3. sætið í N1-deildinni þegar ein umferð er eftir og það yrði mikið áfall fyrir liðið að leika án Mladenovic í úrslitakeppninni. Hún hefur verið í stóru hlutverki í liðinu, sérstaklega í varnarleiknum, en þetta er annað tímabil hennar með Eyjaliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert