Haukar enn með eftir sigur gegn Fram

Haukar eru ekki úr leik í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn en þeir tryggðu sér fjórða leik á mánudagskvöldið með því að leggja Fram, 27:24, í spennandi þriðja leik á Ásvöllum í dag. Staðan einvíginu er 2:1 fyrir Fram.

Haukar voru frábærir í fyrri hálfleik og leiddu eftir hann, 18:12. Deildarmeistararnir hafa oft verið að rembast við að skora 20 mörk í leik eftir áramót en í fyrri hálfleik í dag gekk allt upp. Leikmenn liðsins voru áræðnir og spiluðu kerfin vel. 

Hornamennirnir Gylfi Gylfason og Freyr Brynjarsson voru í sérstaklega miklu stuði og skoruðu samtals þrettán mörk. Það var sama úr hvernig færi þeir fóru inn úr horninu, öll skot heppnuðust. Markvarslan var engin hjá Fram í fyrri hálfleik.

Haukar komust í 21:15 og héldu þá margir að leiknum væri hreinlega lokið enda virkuðu Framararnir þreyttir og ráðalausir í sókninni. En þeir gáfust ekki upp. Magnús Gunnar Erlendsson fór að verja í markinu og betri vörn skilaði auðveldum mörkum úr hraðaupphlaupum.

Framarar skoruðu átta mörk gegn tveimur og jöfnuðu leikinn, 23:23. Þeir fengu svo tækifæri til að komast yfir, 24:23, en Aron Rafn varði frá Garðari Sigurjónssyni af línunni. Alveg frábær markvarsla sem sneri leiknum aftur Haukum í dag.

Heimamenn skoruðu þrjú mörk í röð, 26:23, og gengu frá leiknum. Sigurður Eggertsson skoraði síðasta mark Fram úr vítakasti en Tjörvi Þorgeirsson innsiglaði sigur deildarmeistaranna með síðasta marki leiksins, 27:24.

Framarar eru enn með forystu í einvíginu, 2:1, og geta tryggt sér tíunda Íslandsmeistaratitil félagsins á heimavelli á mánudagskvöldið. 

Mörk Hauka: Gylfi Gylfason 7/2. Freyr Brynjarsson 6, Tjörvi Þorgeirsson 5, Sigurbergur Sveinsson 4, Jón Þorbjörn Jóhannsson 2, Adam Haukur Baumruk 1, Árni Steinn Steinþórsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 15/2 (þar af fimm aftur til mótherja).

Mörk Fram: Róbert Aron Hostert 6, Sigurður Eggertsson 5/2, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Ólafur Jóhann Magnússon 3, Jóhann Gunnar Einarsson 3/1, Elías Bóasson 2, Garðar Sigurjónsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 8 (þar af 3 aftur til mótherja), Björn Viðar Björnsson 1.

Haukar 27:24 Fram opna loka
60. mín. Framarar spila maður á mann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert