Dujshebaev: Listi yfir glæpi Guðmundar er langur

Talant Dujshebaev.
Talant Dujshebaev. Ljósmynd/vivetargi.pl

Talant Dujshebaev, þjálfari pólska handknattleiksliðsins Kielce, er enn mjög heitur þegar hann talar um atvikið sem átti sér stað eftir leik hans manna á móti þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen í Meistaradeildinni í handknattleik um síðustu helgi. Þar lenti þeim Guðmundi Þ. Guðmundssyni saman, bæði eftir leikinn og á blaðamannafundi eftir hann.

Dujshebaev sló m.a. Guðmund Þ. Guðmundsson, þjálfara Löwen, eftir leikinn „á versta stað“, eins og Guðmundur orðaði það í viðtali við Morgunblaðið, og sakaði hann á blaðamannfundi um að hafa sýnt sér lítilsvirðingu og dónaskap með orðum og látbragði meðan á leiknum stóð.

„Já ég hljóp yfir til hans en ekki til þess að slást. Ég sagði honum aðeins hvað mér fannst um framkomu hans. Ég sá aðra hluti, en það sem hann gerði hef ég aldrei séð áður. Ég sýndi það á blaðamannafundinum hvað þessi herramaður gerði. Meðan á leiknum stóð þá skyndilega leit hann á mig, greip í klofið á sér og rétti síðan höndina upp að vörunum. Ég var agndofa,“ segir Dujshebaev í viðtali við pólska blaðið Super Express.

Evrópska handknattleikssambandið hóf í vikunni rannsókn á málinu og hafði Dujshebaev, og forráðamenn félagsins, frest til dagsins í dag til að senda Handknattleikssambandi Evrópu, EHF, greinargerð vegna hegðunar Dujshebaevs.

„Nú vilja þeir að ég fari í bann og kannski vilja þeir drepa mig. En þeir munu aldrei fá höfuð mitt. Látum seinni leikinn hefjast 10:0 fyrir þá. Þýsku fjölmiðlarnir hafa gert hann að engli en mig að djöfli. Þetta er hræsni. Athugið hegðan Guðmundssonar bæði í Þýskalandi og sem þjálfari íslenska landsliðsins. Listi yfir glæpi hans er mjög langur og nú hegðar hans sér eins og hann sé saklaus,“ segir Dujshebaev.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert