Patrekur: Ég hræðist ekki neitt lið

Patrekur Jóhannesson þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson þjálfari Hauka. mbl.is/Ómar

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Hauka var sáttur í leikslok eftir sigur sinna manna á ÍBV í toppslag lokaumferðar Olís-deildarinnar í handknattleik í kvöld en lokatölur urðu 23:22.

Ljóst var fyrir leikinn að Haukar enduðu í toppsætinu og að Eyjamenn myndu hirða annað sæti deildarinnar og því ekki mikið undir. Leikurinn fer seint í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi að sögn Patreks.

„Hann fer ekkert sögubækurnar þannig séð. Þetta var mjög skrýtinn leikur og létt yfir báðum liðum. Varnarleikur og markvarslan var góð hjá okkur ef ég tek það jákvæða út en sóknarlega vantaði smá upp á fannst mér. Við eigum að geta gert betur en þetta,“

Stærstu leikir tímabilsins eru framundan, sjálf úrslitakeppnin og aðspurður hvort menn væru að spara sig fyrir úrslitakeppnina svaraði Patrekur því játandi.

„Já. Við tókum leikmenn út sem voru tæpir. Eins og Elías Má, Jón Þorbjörn og Adam og þeir verða allir klárir á æfingar núna. En ég er með það breiðan hóp að það skiptir svo sem ekki miklu máli. Við vissum það fyrirfram að við yrðum í fyrsta sæti og ÍBV vissi að þeir færu ekkert úr öðru sæti,“ sagði Patrekur.

Fyrir lokaumferðina voru Framarar líklegir til að hirða fjórða og síðasta sætið sem veitir þátttökurétt í úrslitakeppninni. Það urðu þó hins vegar hlutskipti FH-inga sem komu sér bakdyramegin þangað inn. Framarar sigruðu Hauka tvisvar í vetur en Patrekur vill þó ekki líta svo á að þeir hafi sloppið við Framara.

„Framarar eru búnir að spila vel og Gulli búinn að gera mjög góða hluti með Framliðið. En ég hefði nú alveg verið til í að fá þá líka. Ég hræðist ekki neitt lið og maður hefði mætt fullur sjálfstrausti í það. En það er FH og undirbúningur hefst í kvöld. FH-ingarnir eru með sterkt lið og ná að fara inn í úrslitakeppni á síðustu sekúndu og það var sterkt hjá þeim en ég hugsa bara um mitt lið,“ sagði Patrekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert