Kristján aflétti álögunum

FH-ingurinn Ragnar Jóhannsson reyndir markskot í leiknum í gærkvöldi framhjá …
FH-ingurinn Ragnar Jóhannsson reyndir markskot í leiknum í gærkvöldi framhjá Adam Hauki Baumruk. mbl.is/Kristinn

Fyrir leik Hafnarfjarðarliðanna Hauka og FH í gærkvöld höfðu Haukar unnið allar sex viðureignir liðanna í öllum keppnum í vetur. Fljótlega eftir að Haukar lögðu FH-inga í tvígang í sömu vikunni um mánaðamótin febrúar/mars í bikar og deild var Kristján Arason kallaður til í þjálfarateymi FH. Kristján virðist hafa tekið með sér uppskriftina af sigri á Haukum því FH-ingar unnu Hauka loksins í gær.

Úrslit leiksins á Ásvöllum í fyrsta undanúrslitaleik Hafnarfjarðaliðanna á Íslandsmótinu urðu 32:25 en sigur FH var í raun aldrei í hættu eftir frábæra byrjun liðsins í leiknum.

Grimmdin í augum FH-inga sást langar leiðir í upphafi leiks. Ísak Rafnsson og Andri Berg Haraldsson börðu vel frá sér í vörninni og Ísak sýndi líka fín tilþrif sem skytta í sókninni í byrjun. Ásbjörn Friðriksson stýrði sóknarleik FH af röggsemi og Ragnar Jóhannsson tók upp þráðinn frá síðasta leik þegar hann fór á kostum gegn ÍR í lokaumferð Olísdeildarinnar.

Daníel Freyr Andrésson, markvörður FH, kom inn í leikmannahóp liðsins í gærkvöld í fyrsta sinn síðan fyrri part desember, en þá braut hann bátsbein í hendi og hefur ekki leikið síðan. Þó að Daníel hafi ekkert komið við sögu í leiknum var hann Ágústi Elí Björgvinssyni markverði greinilega mikill styrkur. Ágúst Elí átti afar góðan leik í marki FH og varði 14 skot, auk þess sem langar og hnitmiðaðar sendingar hans í hraðaupphlaupum FH-inga voru banvænt vopn.

Nánar er fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert