Þjálfari Serba hættur, sá þýski er valtur

Þjóðverjinn Michael Biegler landsliðsþjálfari Pólverja er ekki valtur í sessi …
Þjóðverjinn Michael Biegler landsliðsþjálfari Pólverja er ekki valtur í sessi eftir að hafa lagt landa sína í undankeppni HM í gær. AFP

Landsliðsþjálfari Serba í handknattleik karla, Vladan Matic, var ekki lengi að segja starfi sínu lausu eftir að lið hans tapaði með 12 marka mun, 33:21, fyrir Tékkum í seinni umspilsleiknum um sæti á HM í gær.

Serbar voru með vænlega stöðu  eftir átta marka sigur, 23:15, í fyrri leiknum á heimavelli fyrir viku. Í gær varð algjört hrun og Tékkar gengu á lagið og unnu sannfærandi stórsigur og tryggðu sér sæti á HM sem fram fer í Katar í janúar.

„Leikmenn landsliðsins voru ekki með á nótunum frá upphafi til enda leiksins. Það skrifast á mig að menn eru ekki andlega undirbúnir fyrir leik eins og þennan," sagði Matic eftir leikinn í gær um leið og hann tilkynnti uppsögn sína eftir innan við eitt ár í starfi landsliðsþjálfara.

Þá þykir Martin Heuberger, landsliðsþjálfari Þjóðverja í handknattleik, vera afar valtur í sessi eftir að þýska landsliðið tapaði fyrir því pólska með einu marki, 29:28, í Magdeburg í gær í síðari leiknum um HM sæti.

Þetta er annað stórmótið í röð sem Þjóðverja missa af eftir að Heuberger tók við að Heiner Brand fyrir þremur árum. Þýska liðið var heldur ekki með á EM í Danmörku í janúar. Um leið er þetta í annað sinn sem þýska landsliðið verður ekki með á HM frá því að fyrsta heimsmeistaramótið fór fram 1938. Þjóðverjar sátu einnig eftir heima þegar HM fór fram í Japan 1997. 

Tapið fyrir Pólverjum í gær þýðir einnig að þýska landsliðið á ekki möguleika á að komast á Ólympíuleikana sem fram fara í Ríó eftir tvö ár. Þýska landsliðið var heldur ekki með á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert