Sjónvarpstekjur IHF hækkuðu um 66%

Það er verðmetið hærra en áður að horfa á menn …
Það er verðmetið hærra en áður að horfa á menn eins og Julen Aguinagalde og Blazenko Lackovic spila handbolta í sjónvarpi. AFP

Meðal þess sem talið er að hafi spilað inn í ákvörðun Alþjóða-handknattleikssambandsins, IHF, að afturkalla þátttökurétt Ástralíu í heimsmeistaramóti karla í handbolta í Katar á næsta ári og bjóða Þýskalandi þess í stað sætið, er verðmæti sýningarréttar í sjónvarpi.

Sýningarréttur í sjónvarpi á stórmótum í handbolta hefur hvergi verið verðmætari en í Þýskalandi, en áhugi á slíkum rétti og samkeppni um hann er vitanlega mun meiri þegar Þýskaland er meðal þátttakenda á mótum.

Í febrúar á þessu ári gerði IHF fjögurra ára samning við Al Jazeera Sport um allan sjónvarpsrétt á mótum á vegum IHF og inni í því eru því heimsmeistaramót karla 2015 í Katar og 2017 í Frakklandi og HM kvenna 2015 í Danmörku og 2017 í Þýskalandi.

IHF fékk greiddar 100 milljónir svissneskra franka fyrir samninginn við Al Jazeera en umboðsskrifstofan UFA Sport hafði átt réttinn frá 2010-2013 og hafði greitt 60 milljónir svissneskra franka. Tekjur IHF af sjónvarpsrétti hækka því um 66%.

Forsenda þess að IHF geti áfram selt sýningaréttinn fyrir svona fjárhæðir er vitanlega sú að hann sé einhvers virði fyrir þær umboðsskrifstofur sem sækjast eftir honum. Það skiptir því máli að land eins og Þýskaland hafi áhuga á því að kaupa réttinn.

Hvort sjónvarpsrétturinn skipti stærstu máli í ákvörðun IHF með að taka Þýskaland inn á HM í Katar án nokkurs sérstaks rökstuðnings er óvíst. Þetta er vitanlega allt getgátur, en meðan ekkert kemur frá IHF um málið er sjálfsagt eðlilegt að slíkar getgátur komi fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert