Þjóðverjar í neðsta styrkleikaflokki á HM

Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, verður með sína menn á HM …
Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis, verður með sína menn á HM í Katar. Þeir verða í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla. AFP

Þýska landsliðið í handknattleik karla verður í sjötta og neðsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í lokakeppni heimsmeistaramótsins í Doha sunnudaginn 20. júlí.

Þýska landsliðið verður semsagt í sama styrkleikaflokki og ástralska landsliðið hefði verið en sem kunnugt er ákvað yfirstjórn Alþjóða handknattleikssambandsins að afturkalla keppnisleyfi Ástrala í vikunni og bjóða Þjóðverjum keppnisrétt á HM í staðinn.

Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í danska landsliðinu verða í fyrsta styrkleikaflokki og Patrekur Jóhannesson og hans menn í austurríska landsliðinu verða í þriðja styrkleikaflokki. Þeir geta dregist saman í riðil með þýska landsliðinu, svo dæmi sé tekið. 

Styrkleikaflokkur 1: Spánn (heimsmeistarar), Frakkland (Evrópumeistarar), Danmörk,  Króatía.

Styrkleikaflokkur 2: Bosnía og Hersegóvína, Pólland, Svíþjóð, Slóvenía.  

Styrkleikaflokkur 3: Rússland, Katar, Makedónía, Alsír.

Styrkleikaflokkur 4: Austurríki, Argentína, Hvíta-Rússland, Tékkland. 

Styrkleikaflokkur 5: Túnis, Egyptaland, Brasilía, Barein. 

Styrkleikaflokkur 6: Íran, Sameinuðu-arabísku furstadæmin, Síle, Þýskaland.

Liðin verða dregin saman í fjóra sex liða riðla. Að riðlakeppninni lokinni halda fjögur efstu lið hvers riðils áfram keppni um heimsmeistaratitilinn en þau átta sem eftir verða taka þátt í keppninni um hinn sígilda forsetabikar sem fyrst var keppt um á HM í Þýskalandi 2007.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert