Íslendingar einir hreyft mótmælum

Forráðamenn ástralska handknattleikssambandsins fá lítinn stuðning að mati landsliðsþjálfara landsins.
Forráðamenn ástralska handknattleikssambandsins fá lítinn stuðning að mati landsliðsþjálfara landsins. Eva Björk Ægisdóttir

Jan Ottosen, landsliðsþjálfari Ástrala í handknattleik karla, segir menn hjá Handknattleikssambandi Ástralíu, ekki vera af baki dottna í baráttu við Alþjóða handknattleikssambandið, IHF, vegna þeirrar ákvörðunar IHF að afturkalla keppnisrétt Eyjaálfu á heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári.

Ottosen undrast áhugaleysi sem virðist ríkja um þessa ákvörðun IHF og þann litla stuðning sem ástralska handknattleikssambandið hafi fengið vegna þess órétts sem það telur sig hafa verið beitt. Ekkert þeirra handknattleikssambanda sem eigi keppnislið á HM í Katar hefur gert athugasemdir við ákvörðun IHF. Ástralar hafa mætta þögninni allstaðan nema hjá Íslendingum.

„Íslendingar eru þeir einu sem hafa hreyft mótmælum við ákvörðun IHF. Þeir hafa ekki mótmælt þeirri ákvörðun að útiloka okkur frá keppninni heldur frekar beint spjótum sínum að því að Þýskalandi var boðið að taka þátt en ekki Íslendingum," segir Ottesen sem segist helst hafa fengið stuðningsyfirlýsingar frá vinum og kunningjum. 

Ottosen segir ennfremur við danska fjölmiðla að enn sé beðið svara frá IHF vegna ákvörðuninnar. Hann er hinsvegar á leið á HM í strandhandbolta þar sem ástralska landsliðið tekur þátt. „Mótið er haldið á vegum IHF og við vitum ekki betur en okkur sé heimilt að taka þátt," segir Jan Ottesen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert