Björn Ingi til Stjörnunnar

Björn Ingi Friðþjófsson.
Björn Ingi Friðþjófsson. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Handknattleiksmarkvörðurinn Björn Ingi Friðþjófsson hefur skrifað undir samning við nýliða Stjörnunnar í Olís-deild í handknattleik karla.

Björn Ingi hefur undanfarin ár leikið með HK og varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu vorið 2012. Hann missti af síðari helmingi síðasta keppnistímabils vegna brjóskloss í baki sem hann hefur nú jafnað sig á.

Björn Ingi er þrautreyndur markvörður sem auk þess að leika með HK hefur einnig staðið á milli stanganna í marki Fram og þá lék með hann með dönsku úrvalsdeildarliði um skeið fyrir fáeinum árum.

Björn Ingi mun styrkja lið nýliðanna. Margt bendir til þess að Brynjar Darri Baldursson, sem lék í marki Stjörnunnar á síðasta vetri, gangi til liðs við FH-inga sem leita logandi ljósi að markverði eftir að Daníel Freyr Andrésson samdi við SönderjyskE í Danmörku í vor.

Kári Kristján í Stjörnuna?

Eftir því sem næst verður komist leita Stjörnumenn að frekari liðsstyrk fyrir komandi átök í Olís-deildinni. Forráðamenn félagsins hafa rætt við Kára Kristján Kristjánsson, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins. Kári Kristján er fluttur heim eftir nokkurra ára atvinumennsku í handknattleik í Sviss, Þýskalandi og síðast í Danmörku. Einnig leita Stjörnumenn dyrum og dyngjum að örvhentri skyttu en þær munu ekki liggja á lausu um þessar mundir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert