Allir spá Kiel titlinum

Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason AFP

Allir þjálfararnir í þýsku Bundesligunni í handknattleik spá því að Alfreð Gíslason og strákarnir hans í Kiel verði þýskur meistari í ár en keppni í deildinni hefst um næstu helgi.

Kiel á titil að verja en liðið varð meistari í 19. sinn á síðustu leiktíð eftir æsilega baráttu við Rhein-Neckar Löwen. Kiel hefur fengið þrjá nýja leikmenn til liðs við sig en það eru hvor Spánverjinn Joan Canellas, Króatinn Domagoj Duvnjak og Þjóðverjinn Steffen Weinhold.

Guðjón Valur Sigurðsson er hins vegar horfinn á braut en Aron Pálmarsson mun spila sitt síðasta tímabil með liðinu en hann hefur sem kunnugt er samið við ungverska liðið Veszprém frá og með næstu leiktíð.

Annað kvöld hefst tímabilið formlega í þýska handboltanum þegar Kiel mætir lærisveinum Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin í árlegum leik meistarar meistaranna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert