Evrópuævintýri ÍBV hefst í dag

Agnar Smári Jónsson, Theodór Sigurbjörnsson og félagar í ÍBV hefja …
Agnar Smári Jónsson, Theodór Sigurbjörnsson og félagar í ÍBV hefja leik í EHF bikarnum í handbolta í dag. mbl.is/Ómar

Íslandsmeistarar ÍBV í handbolta hefja í dag keppni í EHF bikarnum þegar liðið tekur á móti Rishon Lezion frá Ísrael klukkan 16.00 í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum. Þar sem Eyjamenn keyptu heimaleikinn af Ísraelunum, verður síðari leikurinn svo á morgun klukkan 14 í Eyjum.

„Það er gaman að geta boðið Eyjamönnum upp á Evrópuleiki í Vestmannaeyjum í upphafi leiktíðar. Vonandi fáum við bara fulla höll, sem myndi hjálpa okkur mikið í leikjunum,“ sagði Gunnar Magnússon þjálfari ÍBV þegar mbl.is ræddi við hann í gærkvöld.

„Mér tókst að útvega mér upptöku af leik með þeim frá því á síðustu leiktíð. Þetta er kannski ekki nýjasti leikurinn með þeim og maður veit ekkert hvað gerist hjá svona liðum milli tímabila. Það eru einhverjar breytingar hjá þeim, en ekki miklar. Liðið er samt með nýjan þjálfara og með nýja rússneska skyttu. Þannig við tökum kannski ekki alltof mikið mark á þessum myndum. En sjáum svona að þeir eru líkamlega sterkir og hafa verið að spila öfluga 6-0 vörn og eru fljótir að refsa í hraðaupphlaupum. Þeir eru seigir í sókninni, en spila kannski svolítið hægar og langar sóknir,“ sagði Gunnar um Rishon Lezion.

„Þetta er sama lið og sló FH út í Evrópukeppni í vítakeppni fyrir þremur árum. Þetta lið hefur verið í Evrópukeppninni síðustu ár og gengið misjafnlega þar. Við rennum kannski aðeins blint í sjóinn, en samt sem áður teljum við okkur bara eiga góðan möguleika og horfum á þetta sem skemmtilegt verkefni,“ sagði Gunnar sem segir ekkert annað koma til greina en að komast áfram í næstu umferð EHF bikarsins.

Andri meiddur og Sindri tæpur

Eyjamenn mæta með laskaðan hóp í leikina. Í það minnsta eru tveir lykilmenn liðsins meiddir. „Andri Heimir Friðriksson er meiddur á ökkla og verður væntanlega ekkert með okkur um helgina. Sindri Haraldsson hefur verið slæmur í kviðnum og er mjög tæpur. Hann verður í hóp um helgina, en við verðum bara að sjá hvernig hann kemst í gegnum upphitun,“ sagði Gunnar um meiðsli Andra Heimis og Sindra, sem báðir léku stóra rullu hjá ÍBV á síðustu leiktíð þegar liðið varð Íslandsmeistari.

Fyrri leikur ÍBV og Rishon Lezion hefst eins og áður segir klukkan 16.00 í dag og síðari leikurinn verður á morgun klukkan 14.00. Báðir leikirnir verða í Vestmannaeyjum.

Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, ásamt börnum sínum Kristbjörgu Ástu og …
Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, ásamt börnum sínum Kristbjörgu Ástu og Magnúsi Inga. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert