Víkingur bjargar strandaglópum

frá viðureign Maccabi og ÍBV.
frá viðureign Maccabi og ÍBV. Sigfús Gunnar Guðmundsson

Leikmenn ísraelska handknattleiksliðsins Maccabi komast frá Vestmannaeyjum í kvöld og til Landeyjarhafnar. Bátur Viking Tour mun sjá um að flytja liðsmenn Maccabi og farangur þeirra eftir að ófært varð í flugi á milli Eyja og Reykjavíkur auk þess sem ferjan Baldur, sem leysir Herjólf af um þessar mundir er í lamasessi.

Um tíma var talið að Ísraelsmennirnir yrðu strandaglópar í Vestmannaeyjum vegna erfiðleika í samgöngum en liðsmenn Viking Tour voru á öðru máli. Þeir brugðist skjótt við og ræstu skip sitt til þess að flytja gestina til Landeyjarhafnar.

Leikmenn ísraelska liðsins léku við leikmenn ÍBV í dag og í gær í 1. umferð EHF-keppninnar í handknattleik og fóru með sigur úr býtum. Miklu máli skiptir fyrir þá að komast til Keflavíkur sem allra fyrst því þeir eiga að fara af landi brott klukkan hálf eitt eftir miðnætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert