26 handboltamenn í leikbann

Handbolti - bolti
Handbolti - bolti Eva Björk Ægisdóttir

Íþróttasamband Danmerkur hefur úrskurðað fjölda leikmanna úr tveimur liðum í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í leikbann og sekt fyrir brot á reglum á síðustu leiktíð.

18 leikmenn úr SönderjyskE og 8 leikmenn úr Bjerringbro/Silkeborg hafa verið úrskurðaðir í eins leiks bann og er gert að greiða 1.000 danskar krónur í sekt en sú upphæð jafngildir rúmum 20.000 íslenskum krónum.

Upp komst að leikmennirnir úr liði Bjerringbro/Silkeborg hafi greitt 15.000 danskar krónur inn á sektarsjóð SönderjyskE ef liðið færi með sigur af hólmi á móti Skandeborg en sigur SöndjerjyskE tryggði Bjerringbro/Silkeborg síðasta sætið í úrslitakeppninni.

Þar sem það er svo um marga leikmenn að ræða hjá sama liði taka leikbönnin ekki gildi þegar í stað en leikmennirnir verða að hafa tekið út leikbannið fyrir 1. desember.

Enginn íslenskur leikmaður er á meðal þeirra leikmanna sem voru úrskurðaðir í leikbönn en markvörðurinn Daníel Freyr Andrésson leikur með SönderjyskE í dag en hann gekk í raðir félagsins frá FH fyrir tímabilið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert