Var hollt fyrir okkur að falla úr úrvalsdeildinni

Pétur Júníusson.
Pétur Júníusson. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Byrjunin hefur verið góð hjá okkur, ekki síst leikurinn við Val á sunnudaginn. Hann var sannkallað „lostæti“ og sýndi hvað við getum gert þegar allt gengur upp,“ segir Pétur Júníusson einn þeirra leikmanna sem vakið hafa athygli hjá nýliðum Aftureldingar sem unnið hafa báða leiki sína til þessa í deildinni.

„Okkar takmark er meðal annars að sanna að við eigum heima í úrvalsdeildinni. Við erum orðnir þreyttir á að rokka á milli deilda. Mosfellsbær á að eiga lið í efstu deild í handbolta,“ segir Pétur ákveðinn.

Auk þess að leika á línunni er Pétur einn helsti varnarmaður Aftureldingarliðsins. Vörn liðsins hefur verið lítt árennileg enda skipuð hávöxnum leikmönnum sem eru allir nærri tveir metrar en auk Péturs leika Hrafn Ingvarsson og Böðvar Páll Ásgeirsson stór hlutverk.

„Við erum engin lömb að leika við,“ segir Pétur léttur í bragði þegar talið færist að „turnunum þremur“ eins og fyrrgreint tríó hefur stundum verið nefnt. „Annars er meðalhæðin í liðinu mikil og alveg magnað að flestir þeirra ungu manna sem eru að koma upp í liðið úr yngri flokkunum eru um tveir metrar á hæð. Það er rannsóknarefni hvað hefur verið í matinn heima hjá þeim á síðustu árum,“ segir Pétur en hann er einn úr þessum hópi en fer þó ekki nánar út í umræður um matseld á heimilum Mosfellinga.

Sjá allt viðtalið við Pétur í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert