Bubbi til bjargar

Hlynur Morthens.
Hlynur Morthens. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Sterkur varnarleikur, Hlynur Morthens í stuði í markinu og dass af hraðaupphlaupum síðustu þrettán mínútur leiks var uppskriftin að fyrsta sigri Vals á Íslandsmóti karla í handbolta, þegar Valur vann fimm marka útisigur á HK, 27:22.

Það var ekki að sjá í gærkvöld í Digranesi að þar mættust liðin sem annars vegar væri spáð efsta sæti deildarinnar og hins vegar neðsta sæti deildarinnar. HK-ingar sem spáð var 10. sæti fyrir leiktíðina mættu ákveðnir til leiks gegn Val í gær og stemningin var með þeim jafnt á vellinum sem í stúkunni. Óðinn Þór Ríkharðsson sýndi fín tilþrif í blábyrjun og HK-ingum gekk vel að finna Tryggva Þór Tryggvason á línunni með svo góðum árangri að hann skoraði 7 mörk í leiknum og endaði markahæstur.

Valsmenn voru án danska markvarðarins Stephens Nielsen sem tognaði í læri á æfingu á miðvikudag. Hins vegar var engu líkara en fjöldi annarra leikmanna Vals væri heldur ekki með, svo slakir voru margir Valsararnir framan af í gær.

HK sá um að leiða leikinn lengst af og eiginlega ekkert annað í kortunum en að HK færi með sigur af hólmi þar til um þrettán mínútur lifðu leiks og staðan var 20:18 fyrir HK.

Þá small vörnin hjá Val svona líka vel og Hlynur Morthens varði allt sem kom á markið. Hröðum upphlaupum Vals fjölgaði í takt við það og Vignir Stefánsson raðaði inn mörkum. HK skoraði ekki í heilar tíu mínútur og Valur skoraði átta mörk í röð og breytti stöðunni úr 20:18 í 20:26.

Sjá meira um leikina í Olís-deildinni í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert