Lárus: Daprir manni fleiri

Sturla Ásgeirsson undirbýr skot á Lárus Helga í leiknum í …
Sturla Ásgeirsson undirbýr skot á Lárus Helga í leiknum í kvöld. mbl.is/Ómar

„Við vorum ekki langt frá þessu. Þetta var hörkuleikur. Þó að við værum alltaf að elta vorum við alltaf skammt undan og hefðum alveg getað náð stigi,“ sagði Lárus Helgi Ólafsson sem fór á kostum í marki HK í kvöld og varði 20 skot en það dugði skammt því liðið tapaði 30:28 fyrir ÍR í 7. umferð Olís-deildarinnar.

„Það vantar svolítið upp á að við klárum betur dauðafæri, og svo misstum við 4-5 fráköst sem ÍR-ingar skoruðu úr. Það vantaði herslumuninn,“ sagði Lárus Helgi, og tók undir að HK hefði einnig átt að gera mun betur þegar ÍR-ingar misstu mann af velli, eins og gerðist sex sinnum í leiknum.

„Við fórum rosalega illa að ráði okkar manni fleiri, bæði sóknar- og varnarlega. Við létum teyma okkur út úr stöðu trekk í trekk og opnuðum þannig fyrir þá dauðafæri sem þeir nýttu sér vel. Við settum okkur það markmið eftir tapið stóra í Eyjum á mánudag að fækka tæknifeilum og það gekk mjög vel. Ef við höldum áfram á þessari braut þá er það mjög gott,“ sagði Lárus.

HK-ingar tóku Björgvin Hólmgeirsson úr umferð nánast allan leikinn og skoraði stórskyttan „aðeins“ 5 mörk eftir að hafa skorað 10 mörk að meðaltali í vetur.

„Við ætluðum að loka á hann og sjá hvað hinir gætu og það gekk mjög vel. Bjöggi hefur náttúrulega verið mjög heitur í vetur og var verðlaunaður fyrir það með landsliðssæti og það er gott hjá okkur að ná að loka á hann,“ sagði Lárus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert