Arnór Þór: Sjálfstraustið að aukast eftir kjálkabrot

Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur leikið afar vel með Bergischer HC í þýsku 1. deildinni í handknattleik það sem af er keppnistímabilinu. Liðinu hefur einnig vegnað vel og það er nú í 8. sæti deildarinnar. Reyndar fór Bergischer einnig vel af stað á síðasta keppnistímabili en missti svo flugið og var nærri því fallið úr deildinni í vor. 

Arnór Þór segist vonast til að leikmenn séu reynslunni ríkari eftir síðasta keppnistímabili. Að minnsta kosti þykir honum liðið leika betur saman en á sama tíma í fyrra. 

„Við höfum leikið mjög vel það sem er keppnistímabilinu," sagði Arnór Þór í samtali við mbl.is í kvöld eftir að hann lauk æfingu með íslenska landsliðinu í Framhúsinu. Íslenska landsliðið býr sig nú undir leik við Ísrael í undankeppni EM sem fram fer í Laugardalhöllinni á miðvikudagskvöldið. 

„Í fyrra var svipað upp á teningnum framan af en nú erum við staðráðir í halda betur á spilunum og vera í efri hluta deildarinnar. Ekki fara í fallbaráttuslag eins og í vor," segir Arnór Þór. 

„Við erum reynslunni ríkari og erum með betra lið, varnarlega sem sóknarlega," segir Arnór Þór sem hefur leikið vel í vetur. „Eftir kjálkabrot á síðustu leiktíð þá hef ég verið að koma smátt og smátt til baka. Sjálfstraustið hefur aukist en það tók mig nokkurn tíma að jafna mig eftir kjálkabrotið," segir Arnór Þór sem verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu á miðvikudagskvöldið gegn Ísraelsmönnum í Laugardalshöllinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert