Sverre: Vonbrigðin í vor gleymast aldrei

„Við horfum allir í sömu átt eftir að hafa krufið það sem miður fór. Nú er það okkar að koma til baka," sagði Sverre Andreas Jakobsson, landsliðsmaður í handknattleik, eftir æfingu íslenska landsliðsins í Framhúsinu í kvöld en nú er hafinn undirbúningur landsliðsins fyrir leikinn við Ísrael í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið.  Flautað verður til leiks klukkan 19.30.

Þetta verður fyrsti landsleikur íslenska landsliðsins síðan það féll úr keppni fyrir Bosníu í vor í undankeppni HM. Sverre segir að tími sé kominn til að menn sýni að þeir hafi lært að reynslunni. 

„Markmiðið er að vinna báða leikina sem framundan eru í þessari viku," segir Sverre en eftir heimaleikinn við Ísrael á miðvikudaginn tekur við útileikur á móti Svartfellingum á sunnudag. 

„Vonbrigðin frá í vor gleymast aldrei. Við misstum af stórmóti og það á klaufalegan hátt. Þetta verður með okkur út lífið, eitthvað sem gerðist vorið 2014," segir Sverre.

„Við höfum aðeins farið yfir varnarleik Ísraelsmanna og höldum áfram að vinna í því á morgun. Vissulega þekkjum við ekki mikið til Ísraelsmanna en þó vitum við að þeir eru snöggir og liprir og leika með hjartanu. Þeir geta verið öllum ansi erfiðir. 

Það er liðin tíð að hægt sé að ganga út frá einhverjum úrslitum en við ætlum ekki að brenna okkur á sama soðinu tvisvar," segir Sverre Andreas Jakobsson. Nánar er rætt við hann á meðfylgjandi myndskeiði.

Viðureign Íslendinga og Ísraelsmanna hefst í Laugardalshöllinni kl. 19.30 á miðvikudagskvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka