Úrskurðarnefnd IHF dæmdi HSÍ í óhag

Vonbrigðin voru mikil þegar Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í …
Vonbrigðin voru mikil þegar Guðjón Valur Sigurðsson og félagar í landsliðinu náðu ekki að vinna Bosníu og komast á HM. mbl.is/Eva Björk

Úrskurðarnefnd Alþjóða handknattleikssambandsins, IHF, dæmdi sambandinu í hag í málinu sem Handknattleikssamband Íslands höfðaði gegn IHF en HSÍ fékk niðurstöðuna í dag, enda þótt dómurinn sé dagsettur 6. nóvember.

Um er að ræða fyrsta dómstig innan IHF en þangað sendi HSÍ kæru varðandi hvort IHF hefði verið heimilt að breyta reglum sambandsins og nota nýju reglurnar til að ákveða hvaða þjóð tæki sæti Ástralíu í heimsmeistarakeppni karla sem fram fer í Katar í janúar.

Eins og kunnugt er ákvað IHF að Þýskaland myndi taka sæti Ástralíu, þar sem þýska liðið hefði náð bestum árangri á heimsmeistaramótinu 2013, af þeim liðum sem ekki væru með keppnisrétt á HM í Katar 2015. Hinsvegar hafði áður verið tilkynnt að Ísland væri fyrsta varaþjóð Evrópu ef sæti losnaði í keppninni.

Í niðurstöðu dómsins segir að tekið sé undir sjónarmið IHF og sagt að þau séu „rökrétt og byggð á efnisreglum.”   Breyting á reglum hafi verið tekin með lögmætum hætti og því standi niðurstaða IHF. 

Í yfirlýsingu frá HSÍ segir:

HSI lýsir miklum vonbrigðum með niðurstöðuna einkum þar sem hún er með öllu órökstudd.  Af hálfu HSI var því haldið fram að þó svo að reglum væri breytt þá væri ekki hægt að að láta þær reglur gilda í keppni sem væri þegar hafin.  Þessu megin ágreiningsefni er ekki svarað í dóminum og engin lögfræðileg rök færð fyrir niðurstöðunni. 

Nú liggur fyrir að IHF á eftir að taka afstöðu til þess hvaða þjóðir muni fylla þau lausu sæti sem eru til ráðstöfunar í HM Katar. 

HSI mun ekki taka afstöðu til þess hvort málinu verði áfrýjað til næsta dómstigs fyrr en sú ákvörðun liggur fyrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert