Símtalið frá Ágústi kom á óvart

Steinunn Hansdóttir
Steinunn Hansdóttir mbl.is/Eva Björk

„Ég hef búið í Danmörku frá fjögurra ára aldri, eða í rúm 16 ár,“ segir landsliðskonan í handknattleik, Steinunn Hansdóttir, sem skaust óvænt inn í íslenska landsliðið í vor og hefur fest sig í sessi í hópnum.

Steinunn er m.a. í hópnum sem Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari valdi í gær og tekur þátt í fjórum afar mikilvægum leikjum í forkeppni heimsmeistaramótsins í kringum næstu mánaðamót.

Steinunn er vinstri hornamaður í danska B-deildarliðinu Skanderborg. „Ég byrjaði að æfa handbolta þegar ég var átta ára. Segja má að síðan hafi handboltinn orðið stærri og stærri þáttur í lífi mínu,“ sagði Steinunn þegar Morgunblaðið náði tali af henni í gær.

Steinunn býr í Egebjerg, skammt frá Horsens á Jótlandi.

Steinunn hafði aldrei leikið með yngri landsliðum Íslands þegar hún lék sinn fyrsta A-landsleik í júní gegn Finnum í undankeppni Evrópumótsins. Segja má að hana hafi rekið á fjörur landsliðsþjálfarans, Ágústs Jóhannssonar, á síðasta vetri þegar hann þjálfaði danska liðið SönderjyskE. Þá frétti Ágúst af íslenskri stúlku sem léki með Skanderborg Håndbold.

„Í febrúar á þessu ári kom Ágúst á leiki með liðinu mínu. Þá röbbuðum við saman. Í framhaldinu valdi Ágúst mig í landsliðið í vor. Sannast sagna kom það mér á óvart þegar Ágúst hringdi í mig og tilkynnti mér að ég væri valin í landsliðið. Um leið varð ég mjög glöð og ánægð. Það var alveg frábært,“ sagði Steinunn sem auk handboltaleiks með Skanderborg Håndbold hefur nýlega hafið nám sem aðstoðarmaður tannlæknis. „Námið gengur vel og fer vel saman við handboltann,“ segir Steinunn.

Foreldrar hennar eru Hans Jörgen Einarsson og Guðbjörg Steinsdóttir.

Sjá allt viðtalið við Steinunni í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert