Björgvin og Arnór töpuðu illa

Björgvin Páll Gústavsson er markvörður Bergischer sem fékk á sig …
Björgvin Páll Gústavsson er markvörður Bergischer sem fékk á sig 40 mörk í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar voru á ferðinni í þýska handboltanum nú undir kvöld, en fjórum leikjum var að ljúka.

Það var mikil spenna hjá Sigurbergi Sveinssyni og félögum í Erlangen þegar liðið tapaði fyrir Lu-Friesenheim á útivelli í þýsku 1. deildinni. Lokatölur urðu 27:26 þar sem sigurmarkið kom hálfri mínútu fyrir leikslok.

Í kjölfarið tók Erlangen leikhlé en náði ekki að jafna þar sem markvörður heimamanna varði á lokaandartökunum. Sigurbergur skoraði eitt mark og var tvívegis rekinn af velli hjá Erlangen sem er í fimmtánda sætinu með þrettán stig.

Það fór svo illa fyrir Arnóri Gunnarssyni og félögum í Bergischer þegar liðið heimsótti Melsungen. Þar fóru heimamenn með öruggan sigur af hólmi, 40:28, en Arnór skoraði eitt marka Bergischer sem er í fjórtánda sætinu með fimmtán stig. Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki liðsins og varði tólf skot.

Þá vann Gummersbach, lið Gunnars Steins Jónssonar, lið N-Lübecke á útivelli en Gunnar komst ekki á blað í leiknum.

Í þýsku 2. deildinni töpuðu Fannar Friðgeirsson og félagar í Grosswallstadt fyrir Bad Schwartau á útivelli, 31:26. Fannar skoraði þrjú marka Grosswallstadt sem er í sjötta sæti deildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert