Hollendingar í toppsætið

Það var hart barist í leik Hollendinga og Slóvaka í …
Það var hart barist í leik Hollendinga og Slóvaka í dag. Hér reynir Andrea Czanik að brjóta sér leið í gegnum vörn Hollendinga. ANDREJ ISAKOVIC

Þrír leikir fóru fram í milliriðli II á Evrópumóti kvenna í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Króatíu en Hollendingar, Svíar og Svartfellingar unnu allir sigra í dag en sigur Hollendinga á Slóvökum kom þeim í toppsætið.

Hollendingar skelltu sér í toppsæti riðilsins með sigri á botnliði Slóvakíu 30:20 en liðið hefur fimm stig, jafnmörg og Svíþjóð sem vann frábæran sigur á Frökkum í dag 29:26. Ida Oden var markahæst í liði Svía með fimm mörk.

Þá unnu Svartfellingar öruggan sigur á Þjóðverjum 27:20 en Svartfellingar hafa titil að verja en þeir hafa fjögur stig, jafn mörg og Frakkland í 3. og 4. sæti en Frakkar eru í 3. sæti vegna innbyrðis viðureigna.

Á morgun fara fram þrír leikir í milliriðli I. Þórir Hergeirsson og stúlkur hans í norska landsliðinu taka á móti Póllandi og þá leikur Spánn við Rúmeníu og Ungverjaland við Danmörku.

Ida Oden var markahæst í liði Svía í góðum sigri …
Ida Oden var markahæst í liði Svía í góðum sigri liðsins á Frakklandi í kvöld. ANDREJ ISAKOVIC
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert