Katar gæti komið mörgum á óvart

Claude Onesta og markvörðurinn magnaði Thierry Omeyer.
Claude Onesta og markvörðurinn magnaði Thierry Omeyer. mbl.is/hag

Claude Onesta, þjálfari karlalandsliðs Frakklands í handknattleik, segir að heimamenn í Katar geti átt eftir að koma mörgum á óvart á HM í janúar.

Katar er í A-riðli ásamt Spáni, Slóveníu, Hvíta-Rússlandi, Brasilíu og Síle. Frakkar eru hins vegar í C-riðli með Íslendingum og fleiri þjóðum.

„Þau lið sem eru líklegust til að fara í undanúrslitin fyrir fram eru lið á borð við okkar, Danmörku, Spán og Króatíu. En það eru nokkur lið þarna sem gætu komið á óvart. Það er gríðarlegur fjöldi liða, bæði innan og utan Evrópu, sem eru að bæta sig og þróast mjög hratt. Ég býst þess vegna við opnu og jöfnu móti í Doha. Þetta verður spennandi því að fleiri lið en nokkru sinni fyrr geta stefnt á titilinn,“ sagði Onesta við heimasíðu mótsins. Aðspurður hvort heimamenn í Katar séu meðal þeirra liða sem gætu komið á óvart sagði Onesta:

„Katar getur svo sannarlega komið gríðarlega á óvart á heimavelli. Við mættum þeim á móti í Frakklandi í janúar. Þeir unnu Norðmenn og gerðu jafntefli við Danmörku þar, sem sýnir hvað það býr svakalega mikið í þessu liði. Valero Rivera, einn besti þjálfari heims, hefur byggt upp frábært lið sem leikur mjög agaðan og góðan leik, og hefur þróað hæfileika einstaklinganna sem þeir hafa. Við getum búist við miklu af þessu liði,“ sagði Onesta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert