Komast jólasveinarnir í lið Aftureldingar?

Birkir Benediktsson, Árni Bragi Eyjólfsson, og Davíð Svansson, leikmenn Aftureldingar …
Birkir Benediktsson, Árni Bragi Eyjólfsson, og Davíð Svansson, leikmenn Aftureldingar fengu óvænta heimsókn á æfingu fyrir leikinn við ÍR í kvöld. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Jólasveinarnir streyma til byggða þessa dagana og eins og gengur og gerist er áhugi þeirra mismunandi. Sumir hafa áhuga á handknattleik.  Tveir þeirra mættu á æfingu handknattleiksliðs Aftureldingar um helgina þar sem liðið var að búa sig undir viðureignina við ÍR í Olís-deild karla sem fram fer í íþróttahúsinu að Varmá í kvöld. Eins sjá má á meðfylgjandi myndskeiði þá sýndu jólasveinarnir lipurlega tilburði á æfingunni.

Ósennilegt verður þó að teljast að það hafi nægt sveinunum til þess að Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, velji þá í lið sitt fyrir leikinn við ÍR í kvöld.

Leikur Aftureldingar og ÍR verður ein þriggja viðureigna kvöldsins þegar 15. umferð Olís-deildar lýkur. Þar mætast liðin í öðru og þriðja sæti deildarinnar með 20 stig hvort.  Einnig tekur efsta lið deildarinnar, Valur,  á móti  Haukum í Vodafonehöllinni og HK og FH í Digranesi. Flautað verður til leiks í öllum leikjunum klukkan 19.30.  Haukar eru annað af tveimur liðum deildarinnar sem náð hefur að vinna Valsmenn á þessari leiktíð. 

Lipurleg tilþrif jólasveinanna í Mosfellsbæ má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert