Hékk á krossinum og blæddi út hægt og rólega

Jan Pytlick á EM fyrr í þessum mánuði.
Jan Pytlick á EM fyrr í þessum mánuði. AFP

Jan Pytlick, fráfarandi þjálfari danska kvennalandsliðsins í handknattleik, lýsti í dag yfir vonbrigðum með danska handknattleikssambandið og íþróttastjóra þess, Ulrik Wilbek.

Pytlick tók við landsliðinu af Wilbek fyrir 17 árum og hefur stýrt því síðan að einu ári undanskildu. Honum var sagt upp nú um jólin en Pytlick átti eftir eitt ár af samningi sínum. Wilbek er nú orðaður við starfið á ný ásamt mörgum öðrum þjálfurum.

„Ég átti frábæran tíma hjá sambandinu og lengst af fannst mér ég hafa góðan stuðning frá forystusveit þess. En tvö síðustu ár hafa verið erfið. Ef hægt er að gera samlíkingu við krossfestingu, þá er tilfinningin eins og ég hafi hangið lengi á krossinum og mér blætt út hægt og rólega," sagði Pytlick á fréttamannafundi í Óðinsvéum.

„Mér finnst að síðustu misserin hefði stuðningurinn mátt vera meiri og markvissari. Við réðum íþróttastjóra, og ég verð að viðurkenna að ég hélt að það myndi verða meira framfaraskref en raunin varð. Mér þykir leitt að ég fái ekki tækifæri til að vinna til verðlauna með liðinu á næsta heimsmeistaramóti því ég er viss um að það hefði tekist," sagði Pytlick en kvaðst stoltur af sínum tíma með liðið.

„Við unnum sex verðlaun en þau hefðu átt að vera sjö," sagði Pytlick og átti þar við ósigurinn í leiknum um bronsið á EM í Danmörku 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert