Haukar og Grótta í Höllina

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 6 mörk á fyrstu 18 mínútunum …
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 6 mörk á fyrstu 18 mínútunum gegn Haukum. Hér er hún með boltann í leiknum. mbl.is/Golli

Haukar tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik eftir sigur á Selfossi í spennuleik á Ásvöllum, 26:22.

Selfoss hafði frumkvæðið framan af leik og komst í 10:7 en staðan í hálfleik var hins vegar 14:12, Haukum í vil. Haukar voru svo 1-3 mörkum yfir mestan hluta seinni hálfleiks en Selfoss jafnaði metin, 22:22, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir.

Gestirnir náðu hins vegar ekki að skora fleiri mörk. Madalina Puscas, sem hafði lítið varið í leiknum, varði tvö skot undir lokin og Viktoría Valdimarsdóttir innsiglaði sigurinn með tveimur síðustu mörkum leiksins.

Marija Gedroit var markahæst Hauka með 8 mörk en Viktoría og Karen Helga Díönudóttir skoruðu 6 mörk hvor. Hjá Selfossi var Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir í aðalhlutverki með 8 mörk en Kristrún Steinþórsdóttir átti einnig góðan leik og skoraði 4 mörk líkt og Carmen Palamariu.

Grótta komst einnig í Höllina með öruggum sigri á HK, 31:18. ÍBV hafði áður tryggt sér sæti þar en á morgun mætast Fylkir og Valur.

Fylgst var með gangi mála á Ásvöllum hér á mbl.is:

-----------------------------------------

60. Leik lokið. Haukar fara í Höllina eftir verðskuldaðan sigur, 26:22!

58. Staðan er 24:22, Haukum í vil. Selfoss tekur leikhlé. Haukar unnu boltann í vörninni og Marija Gedroit skoraði sitt áttunda mark eftir að hafa sloppið í gegnum vörn Selfyssinga.

56. Staðan er 22:22. Selfoss missti Elenu af velli í tvær mínútur en Áslaug Ýr var að verja frábærlega úr dauðafæri og Carmen jafnaði metin í kjölfarið. Það stefnir í svakalegar lokamínútur.

54. Staðan er 22:21, Haukum í vil. Gestirnir hleyptu strax sömu spennu í leikinn og hefur verið í nær allt kvöld. Elena Birgisdóttir bjó sér til dauðafæri á línunni og skoraði 21. mark þeirra. Haukar tóku leikhlé í kjölfarið.

51. Staðan er 22:19, Haukum í vil. Tvö mörk í röð hjá Haukum sem eru í góðum málum fyrir lokakaflann.

43. Staðan er 19:16, Haukum í vil. Sebastian tekur leikhlé fyrir Selfyssinga og lætur leikmenn heyra það. Sóknarleikurinn hefur verið allt of stirðbusalegur hjá gestunum og þær hafa átt í mestu vandræðum með að ná skoti á markið. Karen Helga var að skora fjórða mark sitt fyrir Hauka.

42. Staðan er 18:16, Haukum í vil. Selfoss náði að jafna metin í tvígang en Áróra Eir Pálsdóttir var að skora tvö góð mörk í röð fyrir heimakonur. Hennar fyrstu mörk í kvöld skilja á milli.

36. Staðan er 15:14, Haukum í vil. Haukar voru þó að missa Viktoríu Valdimarsdóttur af velli í tvær mínútur. Hún hefur átt góðan leik og skorað fjögur mörk. Þetta er alvöru bikarslagur og verður það vonandi fram á síðustu mínútu.

31. Seinni hálfleikur hafinn. Selfoss með boltann og getur minnkað muninn í eitt mark.

30. Hálfleikur. Á Seltjarnarnesi, hjá Gróttu og HK, er Grótta að sigla af öryggi áfram í undanúrslitin en tíu mörkum munar í hálfleik, 18:8.

30. Hálfleikur. Staðan er 14:12, Haukum í vil. Selfoss hafði frumkvæðið framan af leik en Haukar fara til búningsklefa með tveggja marka forskot. Karen Helga fyrirliði skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks eftir að hafa komist inn í sendingu og brunað fram völlinn. Mjög sterkt fyrir Hauka sem voru flestir enn að kvarta yfir meintu broti Hrafnhildar Hönnu á Karenu þegar sú síðarnefnda stal bara boltanum í stað þess að vera að væla eitthvað!

26. Staðan er 12:11, Haukum í vil. Marija Gedroit lætur sífellt meira til sín taka og er komin með 5 mörk. Þetta virðist svo auðvelt þegar hún lyftir sér upp og þenur netmöskvana.

18. Staðan er 9:7, Selfossi í vil. Haukar taka leikhlé. Heimakonur þurfa að finna leiðir til að stöðva Hrafnhildi Hönnu sem er komin með 6 mörk nú þegar. Þeim gengur ágætlega að sækja þrátt fyrir að fyrirliðinn Karen Helga sé í gíslingu úti á miðjum velli. Þess má geta að á Seltjarnarnesi er Grótta að rúlla yfir HK, 11:5.

16. Staðan er 8:7, Selfossi í vil. Ragnheiður Sveinsdóttir úr Haukum var að fá fyrstu brottvísunina fyrir brot á Kristrúnu Steinþórsdóttur eftir góðan sprett. Hrafnhildur Hanna skoraði sitt fimmta mark úr vítinu em var einnig dæmt.

12. Staðan er 5:5. Það er allt í járnum í þessum leik. Selfyssingar þurfa mikið að treysta á Hrafnhildi Hönnu í sóknarleik sínum en hún stendur vel undir því.

6. Staðan er 4:3, Selfossi í vil. Hrafnhildur Hanna ætlar í Höllina, það er alveg ljóst. Hún skoraði þrjú fyrstu mörk Selfyssinga. Gestirnir taka fyrirliða Hauka, Karenu Helgu Díönudóttur, úr umferð.

1. Leikur hafinn! Haukar byrja með boltann.

0. Það sést frekar vel á þjálfurum liðanna hve mikið er undir. Sebastian Alexandersson situr í þungum þönkum og bragðar á nögl við og við, en Halldór Harri Kristjánsson reynir að losna við svitann úr lófunum. Það er bara þetta eina tækifæri í boði til að vera með í Höllinni í lok mánaðarins.

0. Hér á Ásvöllum ómar glerhart undirgrundarrapp, mér til mikillar ánægju. Leikmenn eru að ljúka upphitun og það styttist í að leikurinn hefjist.

0. Marija Gedroit hefur verið helsti markaskorari Hauka síðustu ár og er með 6,4 mörk að meðaltali í leik í Olís-deildinni í vetur. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir er jafnvel enn mikilvægari fyrir Selfoss en hún hefur skorað 7,2 mörk að meðaltali í leik í vetur.

0. Haukar komust í Höllina í fyrra en töpuðu þá fyrir Val í undanúrslitum, 25:21. Á leið sinni í undanúrslitin slógu Haukar út Selfoss á Ásvöllum.

0. Skammt er síðan að Selfoss og Haukar mættust í Olís-deildinni en Haukar unnu þá fjögurra marka sigur, 27:23, fyrir austan fjall. Haukar hafa verið á miklu flugi eftir áramót og eru í 5. sæti Olís-deildarinnar  með 20 stig en Selfoss er í 9. sæti með 11 stig. Það skiptir samt auðvitað nákvæmlega engu máli í bikarnum.

0. Selfyssingar hafa þegar fagnað sigri í Hafnarfirði í bikarnum þetta tímabilið því þeir unnu FH í 16-liða úrslitunum. Haukakonur slógu út varalið ÍBV í Vestmannaeyjum.

Haukar: Sólveig Ásmundsdóttir, Madalina Puscas, Tinna Húnbjörg, Ragnheiður Sveinsdóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir, Agnes Ósk Egilsdóttir, Sjöfn Ragnarsdóttir, Karen Helga Díönudóttir, Viktoría Valdimarsdóttir, Áróra Eir Pálsdóttir, Stefanía Ósk Sigurjónsdóttir, Vilborg Pétursdóttir, Gunnhildur Pétursdóttir, Marija Gedroit.

Selfoss: Katrín Ósk Magnúsdóttir, Áslaug Ýr Bragadóttir, Hulda Dís Þrastardóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Elena Birgisdóttir, Margrét Katrín Jónsdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir, Hildur Öder Einarsdóttir, Thelma Sif Kristjánsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir, Þuríður Guðjónsdóttir, Harpa Sólveig Brynjarsdóttir, Perla Ruth Albertsdóttir, Carmen Palamariu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert