Vonbrigði hvað liðið var andlaust

Stefán Arnarson, þjálfari Fram, var ósáttur með frammistöðu síns liðs eftir tap fyrir Stjörnunni, 22:17, í toppbaráttuleik Olís-deildar kvenna í handknattleik í kvöld. Fram missti annað sætið í hendur Stjörnunnar með tapinu.

„Mér fannst vera andleysi yfir mínu liði. Við keyrðum engin hraðaupphlaup, sóknarleikurinn var mjög hægur og allar ákvarðanatökur voru óskynsamlegar. Við spiluðum virkilega illa,“ sagði Stefán við mbl.is, en lið Fram skoraði eitt mark á fyrstu ellefu mínútunum bæði í fyrri og seinni hálfleik.

„Það er ekki boðlegt í meistaraflokki. Það gekk ekkert hjá okkur, það er bara ljóst,“ sagði Stefán og vildi ekki gera mikið úr mikilvægi leiksins þrátt fyrir að jafnt væri á með liðunum við toppinn.

„Þessi leikur var ekkert stærri en hver annar, við vitum að Grótta verður deildarmeistari svo nú er það bara hvernig sætin raðast í úrslitakeppninni. Það kemur í ljós í lokin,“ sagði Stefán, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert