Þvílíkur leikur, helgi og snillingar

„Þvílíkur leikur, helgi og snillingar sem ég er með í liðinu,“ sagði sigurreifur Gunnar Magnússon, þjálfari nýkrýndra bikarmeistara ÍBV, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að liðið vann FH, 23:22, í úrslitaleik Coca Cola bikarsins í handknattleik í Laugardalshöll í kvöld. Þetta var annar bikarmeistaratitilinn ÍBV. Sá fyrri vannst 1991. ÍBV er nú handhafi Íslands- og bikarmeistaratitilsins.

„Við lendum alltaf í brekku í hverjum leik en alltaf koma menn til baka. Það segir mér mikið um strákana,“ sagði Gunnar glaðbeittur.  „Ég hef þurft að taka á strákunum í vetur og ná þeim niður á jörðina eftir Íslandsmeistaratitilinn í vor en þetta eru Íslands- og bikarmeistarar í dag. Það verður ekki af þeim tekið,“ sagði Gunnar sem óskaði eftir auknum stuðningi frá Eyjamönnum í samtali við mbl.is eftir undanúrslitaleikinn í gærkvöldi. Eyjamenn svöruðu kallinu og fjölmenntu á leikinn.

„Þetta er ekki aðeins titilinn okkar í liðinu heldur allra Eyjamanna. Við erum ein stór fjölskylda,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, sem sagði það vera sérstakt tilhlökkunnarefni að koma heim til Eyja í kvöld með Herjólfi og upplifa svipaðar móttökur og þegar ÍBV varð meistari í vor. „Sá sem hefur upplifað það einu sinni, vill upplifa það aftur.“

Nánar er rætt við Gunnar Magnússon á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert