Alfreð úr leik - Geir og Dagur áfram

Alfreð Gíslason
Alfreð Gíslason AFP

Alfreð Gíslason og lærisveinar í Kiel eru úr leik í þýsku bikarkeppninni í handknattleik eftir tap fyrir Rhein-Neckar Löwen í Mannheim í kvöld, 29:26. Liðin sem Dagur Sigurðsson og Geir Sveinsson þjálfa, Füchse Berlin og Magdeburg, eru hinsvegar örugg um sæti  í undanúrslitum keppninnar sem leikin verða í Hamburg. 

Kiel var marki undir í hálfleik í leiknum við Rhein-Neckar Löwen, 15:14. Í síðari hálfleik tókst Löwen að halda forskoti sínu, ekki síst vegna góðrar markvörslu Niklas Landin og framúrskarandi varnarleiks. Kiel lánaðist aldrei að komast yfir.

Alexander Petersson skoraði fimm af mörkum Löwen, þar af tvö af þremur síðustu mörkunum. Annað þeirra var svokallað sirkusmark. Stefán Rafn Sigurmannsson kom ekkert við sögu í liði Löwen.

Aron Pálmarsson lék talsverðan hluta leiksins fyrir Kiel. Hann skoraði ekki mark en átti nokkrar afbragðs línusendingar. 

Dagur og félagar í Füchse Berlin unnu 2. deildarlið Leipzig, 29:19, á útivelli og Magdeburg, með Geir Sveinsson við stjórnvölin, vann stóran sigur á Göppingen á heimavelli, 32:17. Gott gengi Magdeburg undir stjórn Geirs heldur þar með áfram. 

Fjórði leikur 8-liða úrslita fer fram síðari í kvöld en þar eigast við Gummersbach og Flensburg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert