Alltaf gaman að leika í Veszprém

Róbert Gunnarsson t.h. í leik með PSG.
Róbert Gunnarsson t.h. í leik með PSG. FRANCK FIFE

„Það er ekki mikill munur á liðunum í efri styrkleikaflokknum. Þar af leiðandi skipti það ekki öllu máli gegn hvað liði við drógumst,“ sagði Róbert Gunnarsson, leikmaður franska liðsins PSG, við mbl.is fyrir stundu eftir að dregið var í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í handknattleik. PSG mætir ungverska meistaraliðinu Veszprém og verður fyrri viðureignin á heimavelli PSG í París.

„Það er gaman að leika í Veszprém þar sem er gríðarleg stemning á leikjum. Sömu sögu má segja af heimavelli Kiel og Kielce í Póllandi og alltaf gott að leika í Barcelona. Hver andstæðingur hefur sinn sjarma svo það skiptir ekki meginmáli við hvern er leikið þegar komið er svona langt í keppninni,“ sagði Róbert.

Lið PSG er afar vel skipað og getur staðið hvað lið á sporði en nefna má að meðal leikmanna PSG eru auk Róberts, Daniel Narcisse, Thierry Omeyer, Mikkel Hansen, Igor Vori, Luc Abalo, William Accambray og Samuel Honrubia svo aðeins fáeinir séu nefndir.

PSG mætti einnig Veszprém í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir ári síðan og tapaði í tvígang, 28:26, á heimavelli og með fimm marka mun í Ungverjalandi, 31:26.

„Við erum með lið sem á að fara til Kölnar í undanúrslitun. Til þess verðum við að leika betur mikið betur gegn Veszprém að þessu sinni en við gerðum gegn þeim í átta liða úrslitum í fyrra,“ sagði Róbert Gunnarsson og bætti við að þegar komið er svo langt í keppninni þá skiptir dagsformið oft miklu máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert