Alfreð sáttur við Szeged

Alfreð Gíslason, þjálfari THW Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari THW Kiel. AFP

„Ég er ánægður með þessa niðurstöðu,“ sagði Alfreð Gíslason, þjálfari þýska meistaraliðsins THW Kiel, við Mogunblaðið í gær eftir að dregið var til átta liða úrslita í Meistaradeild Evrópu í handknattleik. Kiel, sem vann Evrópumeistara Flensburg í 16-liða úrslitum, dróst gegn ungverska liðinu Pick Szeged sem ruddi Rhein-Neckar Löwen, næstefsta liði þýsku 1. deildarinnar, úr vegi í 16-liða úrslitum.

„Liðin fjögur sem við gátum mætt eru öll erfið. Það er kostur að eiga seinni leikinn á heimavelli,“ sagði Alfreð sem hafði spáð því að Kiel mætti franska liðinu PSG, sem Róbert Gunnarsson leikur með. „Ég hef verið nokkuð getspakur fram til þess og oftar en ekki giskað á rétt þegar komið hefur að drætti í Meistaradeildinni. En ég hitti ekki á það að þessu sinni,“ sagði Alfreð léttur í bragði. „PSG var sterkasta liðið á pappírunum úr neðri styrkleikaflokknum.“

Alfreð er ánægður með lið sitt um þessar mundir, ekki síst eftir að það sló út Flensburg í 16-liða úrslitunum en Flensburg vann Kiel í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Köln í fyrravor.

„Við spiluðum frábærlega í Flensburg,“ segir Alfreð um fyrri viðureignina sem Kiel vann með níu marka mun, 30:21. „Liðið gerði vel í að halda einbeitingu í síðari viðureigninni á heimavelli okkar á sunnudaginn eftir sigurinn stóra í Flensburg,“ sagði Alfreð ennfremur en Kiel vann á heimavelli, 33:28. „Við áttum svo sem möguleika á að vinna með meiri mun.“

Nánar er rætt við Alfreð og farið um leikina í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar og í átta liða úrslitum EHF-keppninnar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert