Einar og félagar deildarmeistarar

Einar Ingi Hrafnsson í leik með Arendal en liðið varð …
Einar Ingi Hrafnsson í leik með Arendal en liðið varð deildarmeistari í norska handboltanum í fyrsta sinn í gærkvöldi. Ljósmynd/oifarendal.no

ÖIF Arendal, sem Einar Ingi Hrafnsson er á mála hjá, varð í gærkvöldi deildarmeistari í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í fyrsta sinn. Arendal vann Runar, 33:29, í lokaumferðinni á útivelli og varð tveimur stigum á undan liði Bodö. 

Einar Ingi hefur ekki leikið með Arendal-liðinu síðan nokkru fyrir áramót vegna meiðsla í öxl. 

Nøtterøy Håndball, sem Einar Rafn Eiðsson og Gísli Jón Þórisson leika með, féll hinsvegar úr úrvalsdeildinni. Nøtterøy tapaði fyrir Fyllingen/Bergen, 33:28, í lokaumferðinni en liðið þrufti á sigri að halda í leiknum til þess að eiga möguleika á umspilsleikjum um áframhaldandi veru í deildinni. 

Einar Rafn skoraði þrjú mörk í gær og Gísli Jón eitt.

Þórey Rósa Stefánsdóttir, landsliðskona í handknattleik, skoraði fimm mörk og var markahæst hjá Vipers Kristiansand í naumu tapi, 22:21, á heimavelli fyrir Skrim Kongsberg í úrvalsdeild kvenna. Vipers er í sjöunda sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert