Ferillinn í hættu hjá Lindberg

Hafnfirðingurinn Hans Óttar Lindberg.
Hafnfirðingurinn Hans Óttar Lindberg. AFP

Svo gæti farið að danski handknattleiksmaðurinn Hans Óttar Lindberg neyðist til að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla á nýra. Mun það koma betur í ljós að sex vikum liðnum þegar staðan verður tekin á ný.

Hans Óttar sem er ættaður frá Íslandi, meiddist illa í leik með liði sínu Hamborg gegn Füchse Berlin þegar hann lenti í samstuði við Silvo Heinevetter, markvörð Berlínarliðsins. Lindberg fékk þá þungt högg á nýrun og var lagður í skyndi inn á sjúkrahús, þaðan sem hann var útskrifaður í gær eftir tveggja vikna innlögn.

Læknar fylgjast hins vegar enn náið með stöðu mála og hafa tjáð honum að ef nýrun taka ekki eðlilega til starfa á ný muni hann að öllum líkindum þurfa að hætta íþróttaiðkun, en Lindberg er einn besti hornamaður heims. Sjálfur er hann hins vegar bjartsýnn þar sem við fyrstu sín virðist bati hans vera í góðum farvegi.

„Ég sé það jákvæða í hlutunum og vonast til að komast aftur á handboltavöllinn eins fljótt og hægt er,“ sagði Lindberg við danska fjölmiðla í dag, en enn er óvíst hversu lengi hann verður frá. Talið er að það verði einhverjir mánuðir.

„Ég er ekki með alveg fulla hreyfigetu en ef allt gengur að óskum vona ég að þetta muni ekki há mér í hinu daglega lífi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert