Ólafur í þjálfarateymi landsliðsins

Ólafur Stefánsson í landsleik gegn Svíum.
Ólafur Stefánsson í landsleik gegn Svíum. Morgunblaðið/Golli

Ólafur Stefánsson hefur verið tekinn inn í þjálfarateymi A-landsliðs karla í handknattleik. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HSÍ. 

Ólafur mun verða Aroni Kristjánssyni til aðstoðar í næstu tveimur leikjum í Undankeppni EM sem fara fara 29. apríl og 3. maí. Báðir leikirnir eru gegn Serbíu. 

Ólafur tekur þar við starfi Erlings Richardssonar sem verið hefur Aroni Kristjánssyni til aðstoðar ásamt Gunnari Magnússyni. Erlingur var með landsliðinu í aðdraganda HM en fór ekki til Katar vegna anna við þjálfun í Austurríki. Hann mun í sumar taka við Füsche Berlin í sumar og hefur látið af störfum fyrir HSÍ í bili að minnsta kosti. 

Í tilkynningunni frá HSÍ segir ennfremur: „Ólafur mun einnig spila stórt hlutverk í Afrekshópum HSÍ, sem hleypt verður af stokkunum innan skamms. Þessum afrekshópum er ætlað að efla, bæta og þróa unga leikmenn, bæði í karla- og kvennaflokki, og stytta leið þeirra að A-landsliðum.“

Ólafur Stefánsson þjálfaði meistaraflokk karla hjá Val á síðasta keppnistímabili og í upphafi þessa keppnistímabils en tók sér þá frí frá þjálfun til að sinna öðrum verkefnum. Ólafur þekkir Aron Kristjánsson vitaskuld vel en þeir léku saman fyrir Ísland um árabil, bæði með A-landsliðinu og yngri landsliðum. Ólafur lék sinn síðasta A-landsleik eftir að Aron tók við landsliðinu, gegn Rúmeníu í Laugardalshöll sumarið 2013. Auk þess fékk Aron Ólaf til liðs við Kolding í Danmörku fyrir skömmu þar sem Ólafur lék tvo Evrópuleiki með danska liðinu sem Aron stýrir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert