Vildum bara vinna

„Við vildum bara vinna leikinn, " sagði Jón Þorbjörn Jóhannsson, leikmaður Hauka, eftir að liðið vann Val, 21:19, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag og tók þar með tveggja vinninga forskot í rimmu liðanna í undanúrslitum Olís-deildarinnar í handknattleik karla.

„Við vissum að þetta yrði erfitt. Síðasti leikur okkar við Val gaf ekki rétt mynd af getu Valsliðsins í leiknum. Við vissum að þeir myndu vera harðir og það var ekkert annað að gera fyrir okkur en að vera það einnig," sagði Jón Þorbjörn sem stóð í ströngu í vörninni og um skeið á línunni.

Það var svolítill hiti í leikmönnum liðanna, ekki síst í fyrri hálfleik. Jón Þorbjörn segir að viðbúið verði að svipað verði upp á teningnum á þriðjudagskvöldið þegar liðið mætast þriðja sinni, þá á heimavelli Vals. „Menn verða að vera tilbúnir í slaginn."

Haukar voru í sömu stöðu gegn FH í undanúrslitum í fyrra, þ.e. að vera tveimur vinningum undir. Jón Þorbjörn segir leikmenn Hauka þekkja þessa stöðu og það sé ekkert öruggt hjá þeim þrátt fyrir vænlega stöðu. „Við ætlum ekki að slaka. Við vitum að það þarf að vinna þrjá leiki."

Spurður um framúrskarandi leik Giedrius Morkunas markvarðar svaraði Jón Þorbjörn. „Goggi var frábær og tók allt í dag. Vörnin var einnig góð. Við héldum okkar áætlun og þegar það tekst þá erum við massívir," segir Jón Þorbjörn Jóhannsson, leikmaður Hauka.

Nánar er rætt við Jón Þorbjörn á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka