Afgangur hjá HSÍ og Guðmundur endurkjörinn

Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður HSÍ á þingi þess …
Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður HSÍ á þingi þess síðasta vetrardag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nærri 800 þúsund króna hagnaður var af rekstri Handknattleikssambands Íslands (HSÍ) á síðasta starfsári en það kom fram í reikningum sem samþykktir voru á þingi HSÍ sem haldið var síðasta vetrardag. Guðmundur B. Ólafsson var endurkjörinn formaður HSÍ en tveir nýir náðu kjöri í stjórnina. 

Hjalti Þór Hreinsson og Hjördís Guðmundsdóttir voru kjörin í stjórnina í stað Ástu Óskarsdóttur og Þorgeirs Jónssonar sem báðust undan endurkjöri. Auk Hjalta og Hjördísar voru Davíð B. Gíslason og Vigfús Þorsteinsson endurkjörnir til tveggja ára. Gunnar Gíslason, Hannes Karlsson og Þorgeir Haraldsson voru kjörnir í varastjórn til eins árs. 

Velta sambandsins á árinu var 218.227.192 krónur.  Hagnaður var 784.996.-. Eigið fé HSÍ er jákvætt um rétt tæpar 6,5 milljónir. 

Fundarstörf eru sögð hafa gengið vel eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá sambandinu. Tillaga FH um að leika tvöfalda umferð í Olís-deild karla í stað þriggja var felld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert