Viljum klára þetta á fimmtudaginn

Grótta - ÍBV handbolti kvenna
Grótta - ÍBV handbolti kvenna mbl.is / Árni Sæberg

Jón Gunnlaugur Viggósson, þjálfari ÍBV, var ánægður með sigur Eyjaliðsins á Gróttu í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handknattleik í Hertz höllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 25:22 ÍBV í vil sem er þar með komið í 2:1 forystu í einvígi liðanna.

„Ég er svakalega ánægður með sigurinn hér í kvöld. Við lögðum þetta upp sem hálfgerðan úrslitaleik og vildum fá tækifæri til þess að klára þetta heima á fimmtudaginn. Stelpurnar spiluðu frábærlega, sýndu á sér sparihliðarnar og það áttu allir leikmenn liðsins góðan leik í kvöld. Heilt yfir var liðið að spila mjög vel. Ég er alveg ótrúlega ánægður með þær.“

Vera Lopes skoraði 11 mörk í leiknum í kvöld og var einnig mikilvægur hlekkur í varnarleik Eyjaliðsins.

„Vera var að spila gríðarlega vel hér í kvöld og hún hefur verið dýrmæt fyrir okkur allt einvígið. Þá lokaði Kolla (Ólöf Kolbrún Ragnarsdóttir) markinu á köflum í seinni hálfleik og átti góðar vörslur á mikilvægum augnablikum. Sem dæmi er þegar hún varði frábærlega í stöðunni 17:15. Ef að Grótta hefði skoraði þar hefðu þær komist inn í leikinn af fullri alvöru og varsla Kollu var gríðarlega mikilvæg. Kolla á því stóran þátt í sigri okkar hér í kvöld. Mér fannst líka vörnin vera afar sterk hér í kvöld og hún ásamt góðri markvörslu lagði grunninn að sigrinum í kvöld“

Sterk vörn Eyjaliðsins

ÍBV spilaði feykilega öfluga 5:1 vörn í leiknum í kvöld sem Grótta átti í stökustu vandræðum með að finna glufur á.

„Mér fannst 5:1 vörnin ganga nánast fullkomlega upp. Leikmenn Gróttu voru hikandi í sóknaraðgerðum sínum og það var markmiðið með þessu varnarafbrigði. Við það að við spilum ákveðna og framliggjandi vörn fara þær að reyna erfiðar sendingar og við unnum boltann í kjölfarið og náðum að refsa með mörkum úr hraðaupphlaupum sem var afskaplega jákvætt.“

„Við gerum ákall til Eyjamanna að troðfylla Höllina á fimmtudaginn og hjálpa okkur að ná markmiðum okkar sem er að tryggja okkur sæti í úrslitaeinvíginu á heimavelli á fimmtudaginn. Við vonumst eftir því að fá brjálaða stemmingu eins og Eyjamenn eru þekktir fyrir að framkalla. Það mun klárlega hjálpa okkur mikið og fleyta okkur áfram í úrslitaeinvígið.“   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert