Ánægður með karakterinn

„Þessi leikur bauð upp á helling," sagði glaðbeittur þjálfari Gróttu, Kári Garðarsson, eftir að lið hans lagði ÍBV, 24:22, í oddaleik í undanúrslitum Olís-deildar kvenna í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld. Framlengja varð leikinn til þess að knýja fram úrslit. Grótta mætir þar með Stjörnunni í úrslitum Íslandsmótsins sem hefst á þriðjudaginn.

„Að minnsta kosta var spennan mikil og dramatík í lokin," sagði Kári. „Það var mikið undir og þar af leiðandi voru mistökin mörg hjá báðum liðum.

Ég var ánægður með karakterinn hjá mínu liði að komast inn í framlengingu. Útliti var ekkert of bjart um tíma. Okkur gekk illa að skapa okkur færi og þar á eftir að nýta færin. En síðan tókst okkur að krafsa í þetta hraðaupphlaupsmark sem tryggði okkur jafntefli í venjulegum leiktíma," segir Kári.

Ekki er til setunnar boðið hjá honum fremur en leikmönnum því úrslitaeinvígið við Stjörnuna hefst á þriðjudaginn. Kári segir tímann vera skamman sem gefin er á milli undanúrslita og úrslita. „Bæði lið eru í sömu stöðu og það þýðir ekkert að væla yfir því," sagði Kári Garðarsson.

Nánar er rætt við Kára þjálfara Gróttu á meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert